Á vefsíðu Birminghamháskóla kemur fram að vísindamenn við skólann hafi rannsakað áhrif vatnsdrykkju á þyngd fólks. Helen Parretti og samstarfsfólk hennar fylgdust með 84 einstaklingum, sem glímdu við ofþyngd, í 12 vikur og ráðlögðu þeim um mataræði og hreyfingu. Helmingur þátttakendanna var látinn drekka hálfan líter af vatni fyrir þrjár mikilvægustu máltíðir dagsins, morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Hinir áttu að sannfæra sig um að þeir væru saddir áður en sest var að borðum.
Á 12 vikum léttist fólkið í vatnsdrykkjuhópnum 1,3 kílóum meira að meðaltali en fólkið í hinum hópnum. Á vefsíðu Birminghamháskóla er haft eftir Parretti að það geti skipt miklu máli fyrir fólk að léttast um nokkur kíló aukalega á einu ári. Í tengslum við meiri hreyfingu og hollara mataræði geti vatnsdrykkjan verið góð viðbót.
Vísindamennirnir segja að það sem um er að ræða sé að drekka hálfan líter af vatni fyrir hverja þessar þriggja máltíða, samtals 1,5 lítra á dag en ekki eigi að drekka eins mikið vatn og hægt er fyrir hverja máltíð en of mikil vatnsdrykkja getur verið hættuleg.
Norska ríkisútvarpið hefur eftir Christian A. Dreveon, prófessor í næringarfræði við Oslóarháskóla, að það geti verið gott ráð að drekka hálfan líter af vatni fyrir máltíðirnar. Hann sagði að vatnsdrykkjan auki mettunartilfinninguna með því að víkka magann. Áður hafi verið mælt með þessari aðferð en nú hafi vísindamenn rannsakað þetta á vísindalegan hátt og niðurstaðan sé mjög gagnleg.
Bæði Drevon og vísindamennirnir við Birminghamháskóla segja þó að með tímanum muni áhrif vatnsdrykkjunnar þó væntanlega minnka því ekki sé auðvelt að blekkja líkamann til lengdar en vatnsdrykkja geti verið mikil hjálp fyrir þá sem eru einbeittir í því að léttast.
Drevon benti á að áhrifaríkasta leiðin til að léttast sé að borða ekki of mikið, borða hollan mat og auka hreyfingu.
Birt í samstarfi við