Ert þú með mikla nammi- og sykurlöngun? Þú ert alls ekki ein/n um það. Stór hlulti af fólki í dag þjáist af svokallaðri sykurlöngun (meðvitaðri eða ómeðvitaðri) sem oft er mjög erfitt að sigrast á.
Til að byrja með er rétt að rekja aðeins sögu sykur (þ.e.a.s viðbættur hvítur strásykur). Magn sykurs í matvælum jókst mjög mikið í byrjun og um miðja 19.öldina (í N-Ameríku), á þeim tíma er fjöldframleiðsla á mat hófst og stórar matvöruverslanir urðu til. Hér á Íslandi hófst þessi þróun aðeins síðar eða á síðari helmingi 19. aldar. Aðalástæða sykurs í matvælum er aukið geymsluþol matvæla með viðbættum sykri (s.s sultur). En sykur hefur verið notaður öldum saman til að viðhalda gæðum matar, löngu fyrir tíma ísskápa og frystikista.
Enn þann dag í dag þjónar sykur þeim tilgangi að viðhalda geymsluþoli matvara í hillum matvöruverslana (ásamt öðrum geymsluþolsaukandi efnum), auk þess að gera fjöldaframleiddar matvörur og drykki bragðbetri. Undanfarna áratugi höfum við komið upp ákveðnu þoli fyrir þessu aukna magni af sykri í matvörum sem við neytum. Það sem felst í þessu er að; til þess að við finnum sykrað bragð („góða bragðið“) þurfum við alltaf stærri skammta af sykrinum. Því hafa nú margir orðið háðir þessum mjög svo sykruðu matvælum.
Sykraðir drykkir, líkt og gosdrykkir, eru með mjög mikið af viðbættum sykri og hafa þann slæma eiginleika að auðvelt er að innbyrgða mikið magn af sykri á stuttum tíma (í hálfum líter af dæmigerðum sykruðum gosdrykk eru 27 sykurmolar). Með því að útiloka eða minnka neyslu á sykruðum drykkjum getum við gert stórar betrumbætur á mataræði okkar, og auk þess að stuðla að þyngdartapi.
Vert er að taka það fram að ferskir ávextir falla ekki í flokk sykraðra matvara þó vissulega séu margir þeirra mjög sætir á bragðið. Ávextir innihalda náttúrulegan sykur í formi kolvetna en ávextir innihalda einnig trefjar sem hægja á upptöku á næringarefna og orkan sem við fáum endist lengur. Ávextir eru klárlega ein besta leiðin til að njóta sæta bragðsins í mataræði þínu! Ávaxtasafar geta hins vegar verið vandamál því trefjarnar hverfa við vinnsluna á söfunum og oft er sykri eða sætuefnum bætt við. Þetta á þó ekki við um nýpressaða safa.
Grein: Heilsugeirinn er Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur og einkaþjálfari. www.heilsugeirinn.is