Við erum meðvituð um það að vítamín eru nauðsynlegur hluti af eðlilegri líkamsstarfsemi og að flest okkar eigum að fá það sem við þurfum í gegnum þá næringu sem við tökum til okkar dags daglega. Virkni þeirra á líkamsstarfssemi er margvísleg og hefur sem dæmi áhrif á ónæmiskerfið, taugakerfi, meltingu, vöxt og þannig mætti lengi telja. Almennt er talið að líkaminn þarfnist 13 mismunandi tegunda sem skiptast í fituleysanlegu vítamínin A, D, E, og K, annars vegar og hins vegar þau vatnsleysanlegu, C og B vítamínin (þíamín, ríbóflavín, níasín, pantótensýra, bíótín, pýridoxín, fólinsýra og B-12).
Munurinn á þessum tveimur flokkum er að líkaminn skolar út þeim vatnsleysanlegu í gegnum nýrun ef hann þarf ekki að nota þau, á meðan hann geymir A, D, E og K sem þýðir að þau geta safnast upp í líkamanum og valdið eiturverkunum sem afleiðingu af of mikilli neyslu þeirra eða lélegum útskilnaði. Fjölmargir nota þó vítamín sem bætiefni reglubundið og jafnvel í stærri skömmtum en ráðlagt er alla jafna. Ekki eru allir sammála um hvar slíkir skammtar skuli liggja og hafa verið færð rök fyrir því að hækka mætti slíkar ráðleggingar umtalsvert frá því sem nú er. Það er hins vegar augljóslega eðlileg tregða með bætiefni sem kunna að reynast skaðleg.
Þegar horft er til aukaverkana og möguleika á eitrun vegna slíkrar inntöku má nefna sem dæmi ógleði, uppköst, hausverk, svima, slappleika, hægðatregðu, lifrarvandamál, storkuvandamál í blóði, hjartsláttartruflanir auk útfellinga og kalkana í mjúkpörtum líkamans. Til að nefna aukaverkanir af vatnsleysanlegum vítamínum og ofneyslu þeirra sem er einnig möguleg þó ólíklegra sé eru þar algengastar magaverkir, nýrnasteinar, roði og þroti í húð, taugaskaði og truflun á járnbúskap.
Þegar vítamínum er blandað saman við sölt og ýmis önnur bætiefni geta skapast milli og aukaverkanir sem of langt mál er að fara yfir í svona stuttri grein, þó er vert að bæta því við að þekkt er að slíkar samsetningar geta haft áhrif á virkni lyfja svo úr getur orðið skrautleg blanda af virkni og mótverkandi eiginleikum. Sem dæmi má nefna áhrif á krabbameinslyf, flogaveikilyf, hjartalyf og sýklalyf svo eitthvað sé nefnt.
Þessi upptalning kann að hræða einhvern og jafnvel vekja upp spurningar sem er í sjálfu sér ágætt og ætti hver og einn að vera krítískur, spyrja spurninga og leita svara ef hann er óviss um ágæti þeirra leiðbeininga sem hann kann að hafa fengið. Ljóst er að það er ekki alveg sama hvað maður tekur til sín, né í hvað magni og þá skiptir einnig verulegu máli hvaða lyf viðkomandi notar að staðaldri. Flestir fá þó líklega of lítið magn af vítamínum dags daglega og mega vel við því að bæta við sig eftir að hafa fengið góðar leiðbeiningar um slíkt. Ég er því hlynntur því að nota þessi bætiefni á skynsamlegan hátt og tel að við fáum ekki allt sem við þurfum með næringunni. Þá tel ég að endurskoðunar sé þörf með tilliti til ráðlagðra dagsskammta á vítamínum og bætiefnum sem eru líklega of lágir í einstökum flokkum og væri áhugavert að skoða slíkt í samhengi við lýðheilsu.
Teitur Guðmundsson, Læknir
Grein af vef doktor.is