Margir velta því fyrir sér hvaða hlutir þjálfunar og undirbúnings fyrir keppnir, t.d. hlaupakeppnir, skipta mestu máli fyrir árangursaukningu. Eins og með svo margt, þá skiptir máli hver á í hlut enda þessir hlutir mismunandi á milli einstaklinga.
Bananar eru frábær matur!
Margir velta því fyrir sér hvaða hlutir þjálfunar og undirbúnings fyrir keppnir, t.d. hlaupakeppnir, skipta mestu máli fyrir árangursaukningu.
Eins og með svo margt, þá skiptir máli hver á í hlut enda þessir hlutir mismunandi á milli einstaklinga. Vatn hlýtur að vera ofarlega á lista yfir mikilvæg næringarefni enda það næringarefni sem við getum verið án hvað styst, hvort sem við stundum íþróttir eða ekki. Minn besti vinur er banani og nú ætla ég að segja þér hvers vegna.
Banani er
- frábær uppspretta orku. Kolvetnin sem finna má í banönum eru auðmeltanleg og meira er af kolvetnum í banönum en í flestum öðrum ávöxtum. Þetta er áhugaverð staðreynd fyrir úthaldsíþróttafólk, eins og hlaupara og þríþrautarfólk, þar sem þessir einstaklingar þurfa að leggja sérstaka áherslu á nægjanlega mikið magn auðmeltanlegra orku í löngum hlaupum og í erfiðum keppnum.
- ein besta uppspretta kalíums í fæðunni. Kalíum gegnir mörgum mismunandi hlutverkum í líkamanum og er í lykilhlutverki t.d. í hjartslætti og öðrum vöðvasamdrætti og vöðvaslökun. Fyrir skemmtilegt hlaup, án krampa og annarra vöðvaóþæginda, þá er neysla á kalíumrík mat, eins og banönum, mikilvægt skref.
- góð uppspretta B-6 vítamíns. Þetta vatnleysanlega vítamín hefur hlutverk í flutningi súrefnis til starfandi líffæra og hlutverk í efnaskiptum líkamans, svona til að nefna hlutverk þessa áhugaverða vítamíns sem vafalaust vekja athygli hlaupara og annarra úthaldsíþróttamanna.
- með álitlegt magn af magnesíum, steinefninu sem getur minnkað krampamyndun í vöðvum. Margir hlauparar, sundmenn, hjólamenn, margt þríþrautarfólk og aðrir í úthaldsíþróttagreinum glíma við vöðvakrampa á æfingum, í keppnum og jafnvel í hvíld. Ástæður krampamyndunnar geta verið margvíslegar en ef þessir aðilar einbeita sér að því að borða mat sem er ríkur af magnesíum þá leggja þeir grunninn að flottum æfingum og keppnum án krampa og óþæginda í vöðvum. Einn stór banani innheldur u.þ.b. 45-50 milligrömm af magnesíum.
- snilld á hlaupum og á baki hjólafáksins þegar oft er erfitt að nærast!
Gríptu banana og hlauptu hraðara og ánægjuríkara hlaup!
Steinar B., næringarfræðingur
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.