Buff eru góður matur og sóma sér vel sem miðpunkturinn í máltíð. Bæði frábær fyrir grænkera og þá sem vilja auka hlut jurtafæðis í mataræðinu. Lykilatriði er að bera buffin fram með góðri sósu, og svo getur meðlætið verið nánast hvað sem hugurinn girnist.
Buff eru góður matur og sóma sér vel sem miðpunkturinn í máltíð.
Bæði frábær fyrir grænkera og þá sem vilja auka hlut jurtafæðis í mataræðinu.
Lykilatriði er að bera buffin fram með góðri sósu, og svo getur meðlætið verið nánast hvað sem hugurinn girnist.
Okkur finnst gott að hafa jafnvægi í buffunum og byggjum þau oft þannig upp að við notum baunir, heilkorn, grænmeti og svo þarf að vera bindiefni og gott krydd. Í þessi buff settum við kjúklingabaunir, kínóa, brokkolí og notuðum svo chia fræ sem bindiefni. Allt eru þetta trefjarík og holl matvæli, þið getið því prófað þessi buff með góðri samvisku.
Hér eru buffin tilbúin til bökunar eða steikingar
Uppskriftin
2 b brokkolí, skorið í mjög litla bita
2 b soðið kínóa
2 b soðnar kjúklingabaunir
¼ bolli malaðar möndlur eða möndlumjöl + smá til að velta buffunum uppúr
3 msk möluð chiafræ
1 tsk salt
1 tsk sambal oelek (eða annað gott chilimauk)
1 tsk timían
1 tsk madras karrí
Aðferð
- Setjið kínóa og kjúklingabaunir í matvinnsluvélina og maukið saman þar til þetta verður létt klístrað og límkennt.
- Setjið í skál ásamt restinni af uppskriftinni.
- Mótið buff (þetta gera 10 meðalstór eða 18 minni - betra að steikja minni buff) og veltið uppúr smá möndlumjöli/möluðum möndlum.
- Setjið inn í ísskáp og látið stífna í svona 45 mín - má vera lengur.
- Steikið á pönnu þar til báðar hliðar gylltar, eða bakið í ofni. Einnig er hægt að steikja á þurri pönnu og klára að elda í ofni - þá er ofninn stilltur á 200°C og þetta látið eldast í 10 mín og buffunum snúið eftir 6-7 mín.
- Borið fram með dásamlegri sósu.
Dásamleg sósa
2 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
1 dl vatn
1 dl grilluð paprika
3 döðlur
2 msk sitrónusafi
1-2 msk sambal oelek eða annað chilli mauk
1 msk jalapenjo (niðursoðinn)
1 hvítlauksrif
1 tsk laukduft
smá himalaya/sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
Allt sett í blandara og blandað þar til alveg kekklaust.
Uppskrift af vef maedgurnar.is
Njótið í góðum félagsskap.