Við mæðgur höfum lengi verið hrifnar af chiafræjum, enda eru fræin margrómuð fyrir góða eiginleika. Þau innihalda fullt af næringu, eins og reyndar flest fræ gera. Við höldum þó fyrst og fremst upp á chiafræin vegna þess að áferðin á útbleyttum fræjunum er svo skemmtileg, það er svo auðvelt að breyta þeim í gómsæta grauta og deserta. Og svo eru þau sérlega trefjarík, sem gerir þau saðsöm og hjálpleg við að halda hægðunum í lagi (mjög mikilvægt atriði). Við höfum semsagt tekið eftir því að okkur líður vel af chiagrautnum.
Hreinn chiagrautur er svo sem ekkert ofsalega spennandi, en með einföldum aðferðum má útbúa graut sem bragðast nánast eins og desert. Okkur finnst þægilegast að útbúa stóran skammt af chiagrauts-grunni sem við geymum inni í kæli í lokuðu íláti. Grauturinn geymist í allt að viku í þessari einföldu útgáfu. Svo er fljótlegt að ná sér í smá skammt í skál og setja eitthvað góðgæti út á.
Áður en lengra er haldið er ágætt að taka það fram að við erum ekki alltaf svona myndarlegar. En okkur líður voða vel þegar við náum að skipuleggja okkur og útbúum góðan morgunmat eða gott nesti fram í tímann. Og það eru akkúrat svona trix sem láta manni líða eins og maður sé með allt á hreinu, eða allavega eitthvað í áttina...
Chiagrauts grunnurinn er nefnilega svo sniðugur, það er hægt að útbúa stóran grunnskammt fyrir vikuna og gera síðan mismunandi útfærslur eftir skapi og smekk fyrir hvern dag. Þegar við erum í góðu stuði gerum við nokkrar mismunandi týpur, setjum á krukkur og þá eigum við morgunmat eða nesti tilbúið fyrir nokkra daga.
Venjan er að setja ferska eða þurrkaða ávexti út á grauta, en maður sér sjaldnar grænmeti í grautaruppskriftum. Okkur finnst grænmeti ofsalega gott, og þegar maður hugsar út í það, þá er algjör óþarfi að flokka svona fyrirfram hvað má fara í graut og hvað ekki. Við setjum t.d. smá grænkál í graut með brómberjum, og gulrætur í graut með melónum og kornflögum. Við erum ekki frá því að það skapi bara ágætis jafnvægi. En svo finnst okkur líka voða gott að para saman hnetusmjör og kakó, eða hindber og granateplakjarna, í grauta sem mætti jafnvel breyta í desert.
Hér er grunnuppskrift af góðum chiagraut og svo fimm skemmtilegar hugmyndir til að prófa.
Best er auðvitað að finna upp sínar eigin uppáhalds blöndur.
1 dl chiafræ
1 dl tröllahafraflögur
2 dl möndlumjólk
2 dl kókosmjólk
1 tsk vanilluduft
¼ tsk sjávarsalt
(hægt er að nota hvaða jurtamjólk sem er og það má líka minnka mjólkina og setja vatn til helminga).
Tvær aðferðir
Geymsluþol
Fer eftir því hvaða vökvi er notaður í uppskriftina. Lengsta geymsluþolið fæst þegar bara er notuð kókosmjólk (hægt að hafa vatn til helminga) þannig geymist grauturinn í u.þ.b. viku í kæli.
Ef notuð er kókosmjólk + jurtamjólk úr fernu geymist grauturinn í u.þ.b. 5 daga í kæli.
Ef notuð er heimagerð möndlumjólk geymist grauturinn í 3 daga í kæli.
Grauturinn geymist í 2-3 daga í kæli þegar búið er að bæta góðgæti útí.
Stráið nokkrum kókosflögum + niðurskornu grænkáli + brómberjum út á 1 dl af graut.
Gott er að skera stöngulinn af grænkálinu og nota bara laufið, skorið í bita. Svo má líka rista kókosflögurnar, þá verða þær aðeins sætari og bragðmeiri.
Geymist í 2 daga í lokuðu íláti í kæli.
Hrærið nokkrum hindberjum, granateplakjörnum og 1 tsk af kakónibbum saman við 1 dl af graut. Namm!
Okkur finnst æði að hella smá hindberjamjólk út á þennan graut.
Hindberjamjólk: 1 dl jurtamjólk + 1 msk hindber + sæta að eigin vali ef vill.
(Hægt að breyta þessum í desert með örlitlu hlynsírópi!)
Geymist í 2-3 daga í kæli.
Skerið gulrætur og hunangsmelónu í litla bita. Hrærið örlitlu túrmerik dufti (1/8 tsk) saman við 1 dl af graut. Stráið gulrótar og melónubitum yfir, ásamt lífrænum kornflögum eftir smekk.
Ef þið ætlið að geyma þennan í kæli lengur en ½ dag er betra að bíða með kornflögurnar þar til þið ætlið að njóta grautsins, svo þær verði örugglega stökkar og góðar.
Hrærið saman ½ - 1 msk hnetusmjör + ½ msk kakóduft + 1 dl graut. Brytjið perubita út á og stráið nokkrum mórberjum yfir fyrir auka sætu. Ef þið eruð ekki fyrir mórber má setja eitthvað annað sætt í grautinn.
(Hægt að breyta í desert með örlitlu hlynsírópi!)
Geymist í 2 daga í loftþéttu íláti í kæli. Bragðast eins og peruterta!
Gott er að velja velþroskaða og eldrauða tómata í þennan graut.
Byrjið á að brytja niður avókadó, kirsuberjatómata og kóríander. Hellið ½ tsk sítrónusafa út á avókadóbitana og stráið örlitlu sjávarsalti yfir, bara 2-3 flögum. Hrærið nú avókadóinu, tómötum og kóríander út í 1 dl af graut. Dásamlegt!
Geymist í 2 daga í lokuðu íláti í kæli.
Af vef maedgurnar.is