Það þarf alls ekki að vera tímafrekt eða flókið, en allt sem flýtir fyrir matargerðinni á annasömum dögum eykur líkurnar á heimagerðum hollum mat á borðum.
Þegar við vitum að dagskrá vikunnar framundan verður þétt setin reynum við að finna stutta stund til að útbúa eitthvað sem nýtist út vikuna. Eitt af því sem okkur finnst sérstaklega gott að eiga til taks í ísskápnum eru góðar dressingar og sósur. Þær eru nefnilega þeim einstaka hæfileika gæddar að geta umbreytt nánast hvaða hráefni sem er í veislumat.
Þegar við gerum okkar eigin sósur vitum við alveg upp á hár hvað er í þeim og getum valið hráefni af góðum gæðum. Við getum minnkað sætumagnið ef við viljum, við getum notað góða olíu eins og kaldpressaða jómfrúar ólífuolíu og lífrænt ræktað hráefni ef við viljum.
Gott er að geyma sósurnar í lokuðum glerílátum inni í ísskáp. Við mæðgurnar endurnýtum og söfnum endalaust af krukkum og glerflöskum undan mat, þær henta svo vel sem ílát þegar búið er að þrífa þær og ná miðanum af.
Þessar 5 uppskriftir gerum við reglulega því þær nýtast vel í fjölbreytta matargerð og eru í uppáhaldi hjá okkur.
Við hreinlega elskum spicy mayo. Enda kemur sósan öllum á óvart og gerir í alvörunni allt betra. Hún er dásamleg á grænmetisborgara, buff, með ofnbökuðu grænmeti, út á salatið, í sushi, með grillmatnum, sem ídýfa...
2 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
1 dl vatn
3 döðlur
2 msk sítrónusafi
1-2 msk sambal oelek eða annað chilli mauk
1 hvítlauksrif
1 tsk laukduft
smá sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
Allt sett í blandara og blandað þar til alveg kekklaust. Geymist í a.m.k. 5 daga í loftþéttu íláti í ísskáp.
Mmmm... falafel, ferskt grænmeti og tahini dressing, það gerist ekki betra! Tahini dressingin er líka æðisleg út á salöt og matarmiklar skálar og passar sérstaklega vel með baunum. Kjúklingabaunir og tahinisósa eru reyndar bestu vinir. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir beiskum undirtónum tahinis gætu prófað að nota möndlusmjör í staðinn. Okkur finnst tahini samt alveg ómissandi.
1 dl hvítt tahini
4 msk sítrónusafi
4 msk appelsínusafi
3 döðlur
1 msk tamari
1 pressað hvítlauksrif
1/2 tsk karrý
1 ½ dl vatn
nokkur saltkorn
Setjið allt í blandara og blandið þar til orðið mjúkt. Þessi sósa geymist í kæli í um 5-6 daga. Athugið að hún þykknar við geymslu svo gott er að hræra hana upp með smá vökva til að þynna fyrir notkun.
Þetta pestó er aðeins frábrugðið þessu klassíska því í það notum við blöndu af ferskum kryddjurtum. Það er bragðmikið og gefur mikinn karakter í máltíðina. Pestó er gott í hráfæðirétti, ofan á lasagna eða gróft pasta, út á salöt, inn í samlokuna, gefur kraft í pottrétti og súpur, frábært í matarmikla skál og svo framvegis...
100g möndlur, þurrristaðar
3 msk ferskar kryddjurtir: rósmarin + timian + salvía
1 búnt kóríander
½ búnt minta
1-2 rauður chili
1 ½ tsk himalayasalt
3 msk sítrónusafi
1 ½ dl kaldpressuð jómfrúar ólífuolía
Byrjið á að létt rista möndlurnar. Setjið því næst allt nema olíuna í matvinnsluvél og maukið, setjið í skál og hrærið olíunni útí og klárið að blanda saman.
Þessi vinaigrette er fyrst og fremst hugsuð sem salat dressing. En hún er líka æðisleg út á allskyns grænmeti. Með svona góðri dressingu rennur grænmetis skammtur dagsins ljúflega niður.
2 dl kaldpressuð jómfrúar ólífuolía
2 msk balsam edik eða epla edik
3 msk lífrænt sinnep
5 basil stilkar (stilkur + blöð)
1 appelsína, afhýdd og steinarnir fjarlægðir
2 döðlur eða 1 msk sæta að eigin vali
¼ tsk sjávar salt
¼ tsk nýmalaður svartur pipar
Allt sett í blandara og blandað saman.
Fyrir stuttu útbjuggum við ferskar vorrúllur með dásamlegri satay ídýfu. Satay sósan er frábær í rétti inblásna af asískri matarhefð: stirfry, tófú, núðlur, vorrúllur og slíkt. En svo er hún líka ótrúlega góð út á salöt og með öllu grænmeti. Það er æði að eiga satay sósu í ísskápnum.
1 dl hnetusmjör
1 dl kókosmjólk
1/2 dl appelsínusafi
3 msk sítrónu eða lime safi
4 döðlur
2 msk tamarisósa
1-2 hvítlauksrif
2 cm biti sítrónugras (ef þið eigið)
1 limelauf (fæst þurrkað)
1 msk engifer skot
smá ferskur chilipipar eða cayenne pipar, magn eftir smekk
smá salt
Setjið allt í blandara og blandið saman. Geymist í lokuðu íláti í a.m.k. 5 daga
...þá er bara að bretta upp ermar og stinga blandaranum í samband!
Uppskriftir frá maedgurnar.is