Gaman er að gefa gjöf sem gleður og þetta Rauðrófu chutney er alveg dásamlega gott.
Helena eigandi Eldhúsperla myndi miklu frekar vilja vera heima í eldhúsinu, heldur en á síðustu stundu að versla jólagjafir, og búa til eitthvert góðgæti til að gefa fólkinu sínu.
Og sem betur fer, þá kunna nú flestir vel að meta það að fá heimagert góðgæti.
Eitt af því sem er upplagt að búa til og gefa eru sultur eða chutney ýmiskonar. Helena notaði tækifærið um daginn þegar mamma hennar var með smá veislu og bjó til sérlega gott rauðrófu chutney með eplum og engifer.
Jólalegra getur það varla verið og það var líka svo einfalt!
Chutneyið geymist vel í ísskáp í fjórar vikur svo það er upplagt að búa það til um miðjan desember ef gefa á í jólagjöf. Það er einstaklega gott með ostum og sömuleiðis með köldu kjöti, t.d skinku eða kalkún.
Rauðrófu chutney með eplum og engifer (Lítillega breytt uppskrift frá Nigella´s Christmas Kitchen)
- 500 g hráar rauðbeður/rauðrófur, flysjaðar og smátt skornar
- 1 kg epli, flysjuð og skorin smátt (ég notaði Pink lady epli)
- 275 g rauðlaukur, smátt saxaður
- 2.5 cm engiferrót, rifin eða mjög smátt söxuð
- 50 gr þurrkaðar apríkósur, skornar smátt
- 350 g ljós púðursykur
- 2 tsk Maldon salt eða 1 tsk fínt salt
- 1 tsk Allrahanda krydd
- 600 ml rauðvínsedik
- 100 ml vatn
Aðferð:
Setjið allt í frekar stóran pott. Kveikið undir og hleypið suðunni upp, lækkið þá aðeins hitann og látið malla undir loki í eina klst, hafið lokið skakkt á pottinum svo gufan sleppi aðeins út. Hrærið af og til. Eftir eina klukkustund takið þá lokið af, hækkið aðeins hitann og látið sjóða án loks í 30 mínútur. Þá ætti chutneyið að hafa þykknað og um það bil helmingurinn af vökvanum gufað upp. Setjið á hreinar krukkur.
Ég fyllti sjö meðalstórar krukkur, passið bara að eiga nóg af krukkum. Geymist í ísskáp í fjórar vikur.
Uppskrift frá eldhusperlur.com