Grænt te inniheldur ýmis lífræn efnasambönd sem geta bætt heilsuna
Grænt te er meira en bara vatn með grænum lit.
Töluvert af þeim lífrænu samböndum sem eru í telaufunum eru enn til staðar í lokadrykknum og því inniheldur hann mikið af mikilvægum næringarefnum.
Grænt te er mjög ríkt af efnum sem kallast fenólar, sem eru kraftmikil andoxunarefni.
Þessi efni geta verndað frumur og sameindir líkamans gegn skemmdum, en náttúruleg andoxunarefni eru talin geta hægt á öldrun og stuðlað að minnkuðum líkum á mörgum sjúkdómum.
Eitt af mikilvægustu efnunum í grænu tei er andoxunarefnið Epigallocatechin Gallate(EGCG) sem hefur verið rannsakað mikið og er líklega aðal ástæðan fyrir því hvað grænt te hefur öflug áhrif á heilsuna.
Grænt te inniheldur líka örlítið magn steinefna sem eru mikilvæg fyrir heilsuna, þar á meðal mangan.
Reyndu að velja frekar te af hærri gæðaflokki, þar sem sumar þeirra tegunda sem eru lakari í gæðum geta innihaldið eitthvað af flúor.
Niðurstaða: Grænt te inniheldur mikið af lífrænum efnasamböndum sem geta haft margvísleg góð áhrif á heilsu.
Grænt te getur dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum
Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta orsök dauða í heiminum.
Rannsóknir sýna að grænt te getur bætt nokkra af helstu áhættuþáttum þessara sjúkdóma.
Þar með talið er heildar kólesteról, LDL kólesteról og þríglýseríð.
Grænt te eykur mjög mikið andoxunarvirkni blóðsins, sem verndar LDL kólesterólagnir gegn því að oxast, en oxun LDL agna er eitt af því sem á sér stað þegar hjartasjúkdómar eru að þróast.
Miðað við jákvæð áhrif á áhættuþætti kemur ekki á óvart að sjá að þeir sem drekka grænt te eru 31% ólíklegri til að fá hjarta- og æðasjúkdóma.
Niðurstaða: Það hefur sýnt sig að grænt te lækkar bæði heildarkólesteról og LDL kólesteról, auk þess sem það dregur úr líkum á að LDL agnirnar oxist. Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna að tedrykkjumenn eru í minni hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma.
Grænt te getur hjálpað þér til að léttast og dregið úr líkum á offitu
Þar sem grænt te getur hraðað brennslu kemur ekki á óvart að það getur hjálpað þér til að léttast.
Nokkrar rannsóknir sýna að grænt te leiðir til þess að líkamsfita minnkar, sérstaklega hættulega kviðfitan.
Ein af þessum rannsóknum var 12 vikna stýrð rannsókn á 240 mönnum og konum. Hjá hópnum sem drakk grænt te lækkaði fituprósenta töluvert meira, auk líkamsþyngdar, mittismáls og kviðfitu.
Hins vegar sýna sumar rannsóknir ekki marktæka aukningu á þyngdartapi hjá þeim sem drekka grænt te þannig að best er að taka þessum niðurstöðum með fyrirvara.
Niðurstaða: Sumar rannsóknir sýna að grænt te leiði til aukinnar þyngdarlosunar. Það er sérstaklega áhrifaríkt til að draga úr hættulegu kviðfitunni.
Grænt te getur dregið úr líkum á dauða og hjálpað þér til að lifa lengur
Að sjálfsögðu deyjum við öll á endanum. Það er ljóst.
Hins vegar, ef það er rétt að þeir sem drekka grænt te séu í minni hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein, þá er rökrétt að þessir einstaklingar muni lifa lengur.
Rannsókn á 40.530 Japönum á 11 ára tímabili sýndi að þeir sem drukku mest af grænu tei (5 eða fleiri bolla á dag) voru marktækt ólíklegri til að deyja á meðan á rannsókninni stóð.
Önnur rannsókn á 14.001 öldruðum Japönum á aldrinum 65-84 ára sýndi að þeir sem drukku mest grænt te voru 76% ólíklegri til að deyja á meðan á þessari 6 ára rannsókn stóð.
Að lokum
Margar af þeim rannsóknum sem vísað er til hér að ofan eru svokallaðar faraldsfræðilegar rannsóknir. Þannig rannsóknir sýna aðeins að um tengsl sé að ræða, þær geta ekki sannað að grænt te valdi þessum áhrifum.
Hins vegar eru niðurstöður þessara rannsókna fullkomlega rökréttar miðað við þau kröftugu áhrif sem lífrænu efnasamböndin í grænu tei valda.
Þessi grein birtist upphaflega á AuthorityNutrition.com.
Hægt er hægt að lesa pistilinn í heild sinni 10 ástæður til að drekka grænt te hér.
Heimildir: hjartalif.is