Að kasta til í íðilgrænt morgunþykkni var flókið í fyrstu; ég vissi lítið hvað ég var að eiga við – en þegar ég áttaði mig á því hversu saðsamur græni drykkurinn er, fór ég að renna hýru auga til ávaxta- og grænmetishillunnar í matvöruversluninni. Ég hef allar götur verið hrifin af kókosmjólk og í upphafi keypti ég kókosmjólkina í niðursuðudollum, sötraði með hálfum hug og velti því fyrir mér hvort ekki væri til heilnæmari leið til að gera kókosmjólkina – jafnvel heima.
Niðursoðin kókosmjólk er dýr, ég veit engin deili á upprunanum og því síður get ég verið viss um að ég sé í raun að sötra jafn heilnæma fæðuviðbót og ég vil láta í veðri vaka. Fyrir fáeinum dögum síðan pantaði ég mér hins vegar ágætan möndlu-mjólkur-poka gegnum Amazon, sem er til þess gerður að sía möndlukurl frá vökvanum sem myndast þegar möndlur eru lagðar í bleyti, en pokinn er líka ágætur til að sía kókosflögur og gera heimalagaða kókosmjólk. Mundu bara að þú þarft að snúa upp á pokann og kreista vel – nota lófana og grípa þétt um pokann!
Þetta litla krútt pantaði ég gegnum AMAZON og nú sía ég mína eigin kókosmjólk heima:
Þegar sían góða (eða möndlupokinn) var komin í hús, bretti ég því upp ermar, leitaði fanga á netinu og fletti ofan af því hvesu auðvelt og einfalt það er að gera heimalagaða kókosmjólk sem er lífrænt ræktuð í ofanálag og gersneidd öllum eiturefnum sem oft vilja slæðast með í niðursoðnum matvælum. Þessi uppskrift er ljúffeng, sáraeinföld og mun skemmtilegri en niðursoðin kókosmjólk – þetta er vökvainnihaldið sem fer í græna morgunþykknið mitt!
4 bollar (1 líter) vatn
250 gr lífrænar, ósætar kókosflögur
Hitið vatn í litlum potti, en þó ekki alveg upp að suðu. Vatnið ætti að vera heitt, en ekki sjóðandi. Setjið kókosflögurnar í skál og hellið vatninu yfir flögurnar. Látið standa í nokkrar mínútur til að mýkja upp kókosflögurnar. Hellið í blandarann og þeytið í blandaranum á öflugum styrk, til að mýkja blönduna – eða þar til mjólkin er orðin rjómakennd og þétt áferðar.
Hellið nú blöndunni gegnum þétta grisju og síið kókosflögurnar frá vökvanum; kókosmjólkina ætti að geyma í loftþéttu drykkjaríláti – þeas. flösku eða karöflu með þéttu loki.
Ath: Kókosmjólkin er sæt frá náttúrunnar hendi, en til að bragðbæta mjólkina má bæta ½ tsk af lífrænu vanilluþykkni við. Ljómandi gott er að nota kókosmjólkina út í græna morgundrykki (boost) og auka þannig enn á heilnæmt innihaldið! – Viljir þú hins vegar auka enn á gæðin, er ekki úr vegi að kaupa ferska kókoshnetu og setja ferskar kókosflögur beint úr hnetunni út í heitt vatnið og mauka svo í blandaranum áður en flögurnar eru síaðar frá!
Uppskrift af vef sykur.is