Við notuðum hráefni úr öllum flokkum hugmyndatöflunnar nema þeim síðasta. Þeir sem vilja bæta einhverju extra út í gætu sem dæmi sett örlítið maca (1/2 tsk) og/eða ashawaganda (1/4 tsk) út í, passið að setja ekki of mikið, meira er ekki alltaf betra.
Sjeikinn er tvískiptur, bleikt hindberjamauk er sett í botninn og kakó-hafra sjeik ofan á. Tröllahafrarnir hleypast örlítið og gefa þykkt í sjeikinn, sértsaklega ef hann er látinn standa í smá stund. Spínatið er milt og yfirgnæfir ekki kakóbragðið. Saltið ýtir undir sætuna úr banananum og döðlunum og á alls ekki að vera mikið, bara rétt örlítið til að skerpa bragðið. Vanillan setur punktinn yfir i-ið eins og alltaf. Bleika maukið í botninum passar alveg hrikalega vel við, er frískandi og pínu súrsætt, engifersafinn gefur extra kikk sem er alveg nauðsynlegt.
Til að gera brúna sjeikinn búðingslegri er hægt að bæta 1/2 avókadó út í eða nota meira af banana. Til að breyta sjeiknum í desert má auka á döðluskammtinn eða bæta við öðrum sætugjafa.
Brúnn
1/2 dl tröllahafrar
2 dl vatn
1 lúka gott spínat
1/2 - 1 banani (eftir stærð og smekk)
2-3 döðlur
1 msk + 1 tsk kakóduft
1/2 tsk vanilla
örlítið sjávarsalt
Bleikur
1 dl hindber (ef frosin leyfið aðeins að þiðna)
1/4 epli (rifið eða skorið í mjög litla bita)
1 tsk engiferskot (eða rifinn engifer)
Njótið vel - uppskrift frá maedgurnar.is