Fara í efni

Vorrúllur með Satay ídýfu frá mæðgurnar.is

Mmmm... vorrúllur. Margir eru vanir djúpsteiktum vorrúllum, en okkur finnst þær eiginlega bestar ferskar. Mjúkar undir tönn og fullar af fersku hráefni. Best er að dýfa þeim í dásamlega hnetusósu í ætt við satay. Rúllurnar er afskaplega fljótlegt að útbúa því ekkert þarf að elda. Bara skella sósu í blandarann, skera niður grænmeti og rúlla. Og auðvitað dýfa og njóta!
Vorrúllur með Satay ídýfu frá mæðgurnar.is

Mmmm... vorrúllur. Margir eru vanir djúpsteiktum vorrúllum, en okkur finnst þær eiginlega bestar ferskar. Mjúkar undir tönn og fullar af fersku hráefni.

Best er að dýfa þeim í dásamlega hnetusósu í ætt við satay. Rúllurnar er afskaplega fljótlegt að útbúa því ekkert þarf að elda. Bara skella sósu í blandarann, skera niður grænmeti og rúlla.

Og auðvitað dýfa og njóta!

Þær eru ljúffengur hádegisverður eða skemmtilegur forréttur. Svo er tilvalið að útbúa nokkrar og taka með í nesti. 

Best er að byrja á því að útbúa satay sósuna og valhnetukæfuna. Skera því næst niður allt grænmetið og þá er mál að raða á hrísgrjónapappírinn og rúlla upp. Okkur finnst fallegt að hafa annan endann á rúllunum opinn, þær fá svo fallegt og ferskt yfirbragð. En ef þið eruð að útbúa rúllur í nesti þá er best að loka þeim báðum megin og geyma í loftþéttu nestisboxi með smjörpappír í botninum og á milli laga. Svo má hafa satay sósuna með í lítilli krukku, eða bara setja aðeins meira af henni inn í rúllurnar sjálfar. 

 

Uppskriftin

Satay sósa

1 dl hnetusmjör 
1 dl kókosmjólk 
1/2 dl appelsínusafi 
3 msk sítrónu eða lime safi 
4 döðlur 
2 msk tamarisósa 
1-2 hvítlauksrif 
2 cm biti sítrónugras (ef þið eigið)
1 limelauf (fæst þurrkað) 
1 msk engifer skot
smá ferskur chilipipar eða cayenne pipar, magn eftir smekk
smá salt 

Allt sett í blandara og blandað saman. 

Valhnetu kæfa

3 ½ dl valhnetur, þurrristaðar á pönnu 
2 msk vorlaukur 
2 msk steinselja 
½ msk tamari sósa
½ tsk hvítlauksduft 
1 ½ tsk sítrónusafi 
¼ tsk sjávarsaltflögur

Allt sett í matvinnsluvél og maukað saman. Frábært að geyma restina sem álegg á brauð eða kex.

Vefjurnar

8 hrísgrjónapappírsblöð
hnefi af spínati, klettasalati eða grænkáli
1 mangó, afhýtt og skorið í þunnar sneiðar
1 avókadó, skorið i þunnar sneiðar
1 agúrka, skorin í þunna strimla
1 búnt ferskur kóríander
2 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar

Aðferð

  1. Byrjið á að útbúa sósuna og kæfuna.
  2. Skerið því næst grænmetið í þunnar sneiðar.
  3. Hellið volgu vatni í skál og dýfið hrísgrjónapappírnum í bleyti í allt að ½ mín, eða farið eftir leiðbeiningum á pakkanum. (Það er mikilvægt að hafa pappírinn ekki of lengi í vatninu, þá verður svo erfitt að vinna með hann og hann festist við brettið).
  4. Takið pappírinn upp og létt þerrið og setjið á skurðarbretti eða disk.
  5. Byrjið á að raða spínati á pappírinn, setjið 1-2 msk valhnetukæfu ofan á og raðið síðan mangóstrimlum, avókadóstrimlum, agúrku, kóríander og vorlauk á rúlluna.
  6. Endið á að setja rönd af sataysósu ofan á og rúllið upp.

 

Njótið í rólegheitum og í góðum félagsskap.

Uppskrift af síðu maedgurnar.is