Þetta sælgæti er svolítið þannig. Stökkur en samt smá seigur botn, dúnmjúk karamella og ristaðar möndlur, allt hjúpað með ljúffengu dökku súkkulaði. Himnasæla!
Þetta sælgæti er vegan og glútenlaust og hentar því vel þeim sem kjósa að lifa á jurtafæði eða eru með glútenóþol. (En athugið að það er ekki dulnefni fyrir "svo súper hollt að það má borða í staðinn fyrir grænmeti").
Við veljum alltaf gott hráefni úr lífrænni ræktun þegar það er hægt, líka þegar við útbúum sætindi. Með því styðjum við jákvæða þróun í átt að umhverfisvænni ræktun. Við völdum fairtrade vottað súkkulaði fyrir hjúpinn, því okkur finnst líka mikilvægt að styðja góðan aðbúnað þeirra sem vinna við kakó framleiðsluna.
En aftur að sælgætinu. Sú eldri bakaði vegan marengsdropa úr "aquafaba" til að nota sem botna. Þetta er ótrúlega skemmtileg aðferð þar sem soðið af kjúklingabaunum er notað á svipaðan hátt og eggjahvítur í marengs gerð. (Við gerðum vegan pavlóvur með chili-jarðaberjum í fyrrasumar með þessari aðferð, þið getið lesið meira um aquafaba í færslunni hér).
Við skárum svo toppana af dropunum og settum karamellu og möndlur inní. Og hjúpuðum með dökku súkkulaði!
Útkoman: algjörlega himneskir sælgætismolar sem fá hörðustu töffara til að roðna!
vökvinn úr 1 krukku af lífrænum kjúklingabaunum (aquafaba)
1/3 tsk cream of tartar
1 tsk lakkrísduft eða vanilluduft
3 msk lífrænn hrásykur, malaður í kryddkvörn
1 dl hlynsýóp
½ dl kókosolía
½ dl hnetusmjör eða möndlusmjör
¼ tsk sjávarsalt
Allt sett í blandara og blandað þar til alveg kekklaust
Fyllingin:
1 dl þurrristaðar möndlur, smátt saxaðar
2 dl karamella
nokkur hindber (eitt í hvern mola, ef vill)
Hjúpurinn:
100g lífrænt dökkt súkkulaði, fairtrade
... þegar við prófuðum að pota einu hindberi í hvern mola skaust himnasælan upp í næstu vídd!