Svar mitt við þessari spurningu er að þetta snýst fyrst og fremst um skipulag. Ég veit að það er ekkert sérstaklega spennandi svar en þú kemst fljótt upp á lagið með að skipuleggja þig og það gerir ferðalagið þúsund sinnum ánægjulegra. Ég tek það sem mér finnst algjörlega nauðsynlegt til að viðhalda orku, góðri meltingu og vellíðan með mér. Það leiðinlegasta sem ég veit er að fara í ferðalag og koma til baka þrútin, orkulaus og nokkrum kílóum þyngri. Ég gafst upp á því fyrir löngu og ég vona að greinin í dag og leiðarvísir minn auðveldi þér að velja hollt á flakkinu í sumar.
Mér finnst gott að hafa meðferðis nesti þann dag sem ég ferðast því það er ekkert verra á ferðalögum en að lenda í því að finna ekkert hollt í boði. Þetta hefur mér fundist vera nauðsynlegt fyrir flug eða lengri bílferðir. Ég reyni að taka meðferðis próteinríkt snarl til að viðhalda orku yfir daginn, og velja eitthvað sem auðvelt er að ferðast með og skemmist síður. Hnetur, fræ og þurrkaðir ávextir saman í snarlpoka eru frábær kostur. Í snarlpokanna set ég hnetur, fræ, rúsínur, goji ber, kakó nibbur eða hvaða þurrkuðu ávexti sem ég á til – pokarnir passa fullkomlega í töskuna þína og þú getur gripið í þá yfir daginn. Heimagerðar orkukúlur eru líka æðislegar en ef ég hef ekki tíma til að gera þær þá kaupi ég gjarnan hrá orkustykki (Raw bar) til að kippa með.
Ég passa líka að vera alltaf með vatnsflösku á mér svo ég muni eftir að drekka nóg. Ef þú ert ekki mikið fyrir að drekka vatn gætirðu prófað að setja jurtate ofan í vatnið svo þú fáir frískandi bragð af vatninu. Kókosvatn með chai te sem dæmi er dásamlegt!
Áður en þú kemur á áfangastað er sniðugt að leita uppi holla og góða veitingastaði, bústbari,eða stærri heilsuverslanir. Ég nota mikið heimasíðuna Happy cow en þar er hægt að finna helstu grænmetis- og hráfæðisveitingastaði hvar sem er í heiminum. (líka á Íslandi).
Það sem ég tek með mér í ferðalagið:
Chia fræ og hemp fræ - fyrir saðsaman graut
Grænt duft eða chlorella töflur
Grænir safar
Raw próteinstangir
Heimagerðir snarlpokar og kókosflögur
Orkukúlur
Epli og möndlusmjör
Jurta- eða grænt te
Hollt hrökkbrauð, vegan ostur og þurrkaðar ólífur
Ef þú nærð ekki að undirbúa fyrir ferðalagið er alltaf hægt að stoppa við á bensínstöð og hollir kostir sem ég hef fundið eru: Hnetur (forðist súkkulaðihúðaðar útaf sykurmagni), Raw bar ef fæst, dökkt lífrænt súkkulaði, Fitnesspopp, hreinan Topp eða kristal (þeir bragðbættu innihalda sykur) og The Berry Company safar eða aðrir safar án viðbætts sykurs sem dæmi.
Að viðhalda heilbrigði í sumar mun skila sér margfalt til baka hvað varðar vellíðan og orku. Allar tillögurnar hér eru hreinsunararvænar ef þú ert að fylgja 5 daga matarhreinsuninni okkar, sjá fyrsta daginn hér.
Hvernig velur þú hollt á ferðalaginu? Hverja af þessum hugmyndum líst þér best á?
Hlakka til að heyra í spjallinu að neðan
Deildu á Facebook og bjóddu vinum þínum að velja hollt með þér í sumar. Fylgstu með mér á ferð og flugi á Snapchat: lifdutilfulls og Instagram!
Ef þú vilt enn fleiri einföld ráð og uppskriftir að því að skapa þér lífstíll með meiri orku og vellíðan vertu viss um að fylgjast með uppskriftabók minni sem kemur í bókabúðir í haust!
Heilsa og hamingja,
Júlía heilsumarkþjálfi