Undanfarið hefur verið vinsælt að útbúa açai-skálar úr açai berjamauki, nokkurskonar smoothie í skál með allskyns girnilegu ofan á. Okkur langaði að gera okkar eigin útgáfu af þessari vinsælu skál, en nota frekar ber sem vaxa nær heimahögunum. Sólber hafa verið í miklu uppáhaldi hjá okkur alveg síðan úr barnæsku, amma Hildur og afi Eiríkur voru alltaf (og eru enn) með marga sólberjarunna í sínum garði, og við fengum bæði að njóta þess að tína berin beint upp í munn og svo að njóta dásamlegu sólberjasultunnar á haustin.
Við ákváðum að prófa að útbúa sólberja-skál, sem minnir glettilega mikið á açai-skálina títtnefndu og er virkilega bragðgóð. Sólber fást frosin í stórmörkuðunum um þessar mundir, svo styttist í sumarið og þá verður nú aldeilis sólberjaveisla víða í íslenskum görðum.
Að bera smoothie fram í skál finnst okkur góð hugmynd, því við borðum hann hægar með skeið en röri. Við tyggjum bitana og upplifum skálina frekar sem heila máltíð og fyrir vikið finnst okkur hún verða saðsamari. Svo er líka svo mikið pláss fyrir allskonar girnilegt ofan á, okkur finnst dásamlegt að strá lífrænt ræktuðum hnetum, fræjum, ávöxtum, spírum og avókadó yfir skálina til að hafa eitthvað að bíta í. Þetta gerir máltíðina mun saðsamari og skálin verður litrík og vorleg.