Kínóaskálin er akkúrat þess konar máltíð.
Þegar við mæðgurnar erum að bralla eitthvað saman tökum við okkur alltaf tíma í að borða eitthvað gott. Oftast er það hádegismaturinn og þar sem við erum báðar miklar salat konur verður matarmikið salat oftar en ekki fyrir valinu. Kínóaskálin er dæmigerður fljótlegur hádegismatur sem við skellum í þegar okkur langar í eitthvað nærandi og mettandi, en ekki of þungt í maga. Í þennan rétt er tilvalið að nota þá afganga sem leynast í ísskápnum hverju sinni, t.d. ofnbakað grænmeti eða soðnar baunir. Rétturinn er aldrei eins, við notum það sem til er hverju sinni.
Okkur finnst mikilvægt að hafa jafnvægi í skálinni. Jafnvel er gott að hafa þrískipta diskinn í Ráðleggingunum frá Landlæknisembættinu í huga þegar máltíð er sett saman, þ.e.a.s. að muna eftir góðum próteingjafa, gæða kolvetni (grófmeti) og grænmeti/ávöxtum. Okkar uppáhalds próteingjafar í þetta salat eru baunir og hnetur, svo eru reyndar góð prótein í kínóa líka. Við fáum gæða kolvetni úr sætu kartöflunum, baununum og kínóanu og svo er nóg af girnilegu grænmeti.
Svo þarf eitthvað fyrir sálina og bragðlaukana: Granateplakjarnar og sólþurrkaðir tómatar lífga heldur betur upp á og víkka bragð-litrófið. (Við notuðum uppáhalds sólþurrkuðu tómatana okkar, þeir eru svona "semisecchi" eða hálfþurrkaðir ítalskir kirsuberjatómatar í lífrænni jómfrúarólífuolíu, þvílíkt lostæti). Lykilatriði er síðan dressingin, hún setur punktinn yfir i-ið og gerir bragðlaukana hoppandi káta. Við erum kóríander sjúkar, þess vegna settum við fullt fullt af ferskum kóríander í sósuna, ef þið eruð hrifnari af öðru kryddi er hægt að gera sósuna með ferskri basilíku eða ykkar uppáhalds kryddjurtum.
Kínóaskál með kóríandersósu
4 dl soðið kínóa
2 dl bakaðar sætar kartöflur
2 dl grænkál, smátt saxað - eða lífrænt spínat
1 dl soðnar kjúklingabaunir (til dæmis úr krukku)
1 dl klettasalat
1 dl granateplakjarnar (má sleppa)
1 avókadó, skorið í bita
1 rauð paprika, skorin í bita
nokkrir sólþurrkaðir tómatar (semisecchi í jómfrúarólífuolíu eru bestir!!)
nokkar kasjúhnetur, þurristaðar á pönnu eða bakaðar í ofni
Kóríander dressing
1 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 15 mín (má vera lengur)
½ búnt ferskur kóríander (hægt að nota basil)
½ dl appelsínusafi
2 msk sítrónusafi
1 hvítlauksrif
1 daðla (má sleppa)
½ tsk sjávarsaltflögur
-allt sett í blandara og blandað saman.
Að lokum er hér gott ráð frá sérfræðingunum hjá Landlæknisembættinu:
Uppskrift frá maedgurnar.is