Uppskriftir by Drífa P.
Var að vesenast að venju í eldhúsinu að reyna að finna eitthvað nýtt að gera við kjúklingabringur. Mundi svo eftir henni Nigellu vinkonu minni sem eldar nánast bara úr hráefnum sem ég er með ofnæmi fyrir en rámaði eitthvað í kjúkling sem hún tróð sítrónu inn í og helling af papriku undir. Með þessar forsendur var haldið útí tilraunastarfsemi sem lukkaðist alveg hrikalega vel.
Innihaldsefni:
1 pakki dönsku kjúklingabringurnar úr Bónus (þessar í rauðu pökkunum)
1/5 pakki af fersku rósmarín
1 sítróna
1 rauð paprika
1 gul paprika
1/5 blaðlaukur
5 hvítlauksrif
2 msk olífuolía
1 msk blandaður pipar
Aðferð:
Byrja á því að skera niður blaðlauk (skerið hann í tvennt og notið þannig bæði græna og hvíta hlutan) og paprikuna. Setja í eldfast mót með rósmarín og hvítlauk, setja olífuolíuna yfir grænmetið og krydda með pipar.
Næst er kjúklingabringunum raðað yfir grænmetið, meira rósmarín sett yfir bringurnar og að lokum eru sítrónusneiðarnar settar yfir bringurnar.
Ok, næst er svo bara að skella inn í heitan ofn á 200° blástur í 45-50 mín. Með þessu er rosalega gott að hafa sætar kartöflur bakaðar í ofni og þessi réttur býður upp á tvo möguleika varðandi sósu. Í fyrsta lagi er hægt að nota bara soðið sem kemur af grænmetinu í botninum sem er alveg geggjað eða…. Búa til pasta sósu í mixer og hafa þá pasta með í stað sætu kartöflunar. Þegar ég segi pasta þá er ég að tala um glúteinfrítt/sojafrítt/eggjafrítt pasta.
Uppskrift frá palinurnar.wordpress.com