Fara í efni

Lúxus biti í skyndi - frá Eldhúsperlum

Dásamlegur kvöldverður.
Lúxus biti í skyndi - frá Eldhúsperlum

Það er nú bara þannig að það þarf alltaf að vera eitthvað í matinn.

Þegar tíminn er naumur eins og eiginlega alltaf á virkum dögum langar manni svo oft í eitthvað gott í matinn en hefur alls ekki tíma til að standa yfir pönnum og pottum svo tímunum skipti.

Það er alltaf jafn ánægjulegt að elda rétti sem taka enga stund í undirbúningi og svo sér ofninn bara um restina og hægt er að gera eitthvað skemmtilegt eða gagnlegt á meðan. Mismunandi er hvaða grænmeti er notað en það er eiginlega nauðsynlegt að hafa gulrætur og fennelið gefur alveg ofsaleg gott bragð. Mæli með því að þið prófið það.

Ofnbakaður kjúklingur með kartöflum og grænmeti – Fyrir fjóra.

Það sem ég nota í þennan rétt er:

  • 1 heill kjúklingur (1.5kg)
  • 2-3 bökunarkartöflur eða nokkrar minni
  • 2-3 gulrætur
  • 1 frekar stór laukur
  • 1 fennel
  • 1 sítróna
  • 1 hvítlaukur
  • Salt, pipar, ólífuolía og rósmarín
  • 1/2 l kjúklingasoð (vatn og kraftur)

Aðferð: 

Ofn hitaður í 200 gráður með blæstri (annars 210-220 gráður). Ég byrja alltaf á því að skola kjúklinginn og þerra hann vel með eldhúspappír. Því næst ber ég á hann vel af ólífuolíu, salta og pipra vel að innan sem utan. Svo sker ég sítrónuna og hvítlaukinn í tvennt, þversöm. Hef hýðið á hvítlauknum og sting þessu öllu saman inn í kjúklinginn.

 

Svo er bara að skera allt grænmetið frekar gróft niður og setja í botninn á eldföstu móti eða á bökunarplötu, krydda með salt og pipar og smá ólífuolíu. Leggja svo kjúklinginn ofan á grænmetið og strá smá rósmarín yfir allt saman. Það finnst mér alveg gera gæfumuninn. Svo helli ég kjúklingasoðinu í fatið.  Þetta er svo bakað í um það bil 50 mínútur, eða þar til kjarnhitinn er kominn í a.m.k 70 gráður.

Ég ber þetta bara svona fram eins og það kemur, er ekki með neitt aukalega með, enda bæði kartöflur og grænmeti og svo kemur alveg dásamleg soð sósa í botninn á fatinu af grænmetinu, sítrónunum og kjúklingnum. Þetta er alveg ofsalega gott.

Uppskrift frá eldhusperlur.com