Sósan er bragðmikil svo ef þið eða börnin ykkar eruð mjög viðkvæm fyrir sterku bragði er um að gera að nota milda salsa sósu og jafnvel hægt að skipta Mexíkó ostinum út og nota papriku eða pepperoni ost í staðin.
Hitið ofn í 180 gráður og kveikið undir pönnu á meðal-háum hita. Skerið bringurnar í tvennt, kryddið og steikið upp úr smjöri eða olíu þar til bringurnar hafa brúnast. Leggið kjúklinginn í eldfast mót.
Hellið salsa sósunni á pönnuna ásamt smátt skornum Mexíkó ostinum og rjómaostinum og hálfum kjúklingateningi. Setjið 1 dl af vatni í salsakrukkuna, lokið á og hristið og hellið á pönnuna. Hitið sósuna þar til allt bráðnar en það er allt í lagi að hafa smá Mexíkó osta bita í henni, bara betra. Hellið yfir kjúklingabringurnar. Stráið yfir rifna ostinum og nokkrum lúkum af muldum tortillaflögum. Bakið í 20 mínutur.
Stráið smátt söxuðum kóríander yfir og berið fram með tortillaflögum, gróft skornum tómötum og avocado. Það má líka gjarnan bera þetta fram með hrísgrjónum, brauði eða salati.
Uppskrift frá eldhusperlur.com