Ég hef allavega ekki ennþá rekist á köku sem verður verri af karamellu svo þetta hlaut að enda vel. Kakan er mjúk með frekar hefðbundnu kryddkökubragði og eplin með karamellunni gera svo útslagið. Ilmurinn á heimilinu getur svo varla orðið betri en þegar svona dásamlega krydduð eplakaka bakast í ofninum. Prófið þessa og gleðjið fjölskyldu og vini með notalegri köku. Segir Helena hjá Eldhúsperlum.
Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Smyrjið smelluform og setjið smjörpappír í botninn. Ef formið ykkar á það til að leka setjið þá álpappír utan um formið þar sem karamellan gæti lekið út. Flysjið eplin og skerið í sneiðar og raðið fallega í botninn á smelluforminu.
Brúnið smjörið í litlum potti. Hér má sjá góðar leiðbeiningar um hvernig á að brúna smjör. Ef þið nennið ekki að brúna smjörið er líka fínt að bræða það bara. En ég vil samt taka það fram að brúnað smjör gerir ALLT betra. Takið smjörið af hitanum og leyfið að kólna.
Setjið innihaldið í karamelluna í pott (sama og þið brædduð smjörið í óþarfi að þrífa hann á milli) og bræðið allt saman við meðalhita þar til sykurinn er allur uppleystur. Hellið helmingnum af karamellunni yfir eplin og geymið hinn helminginn þar til síðar.
Hrærið öll hráefnin í kökuna saman. Fyrst þurrefnin og svo eggin, súrmjólkina og smjörið. Ekki hræra of lengi, bara þannig að allt blandist saman. Deigið á að vera frekar þykkt. Dreifið kökudeiginu yfir eplin og bakið í 45 mínútur. Leyfið að kólna í 10-15 mínútur. Losið kökuna frá hliðunum með hnífi og hvolfið henni svo á tertudisk. Hellið restinni af karamellunni yfir og berið fram.
Uppskrift frá eldhusperlur.com