Kúrbíts lasagna er í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðgum þessa dagana. Þetta lasagna var reyndar upphaflega hráfæðiréttur, en þegar sú eldri fékk þá snilldarhugmynd að prófa að baka það í ofni eins og hefðbundið lasagna, þá skutust bragðlaukarnir í nýja vídd. Og nú er rétturinn orðinn fastagestur á matseðlinum.
Kúrbíts lasagna er í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðgum þessa dagana.
Þetta lasagna var reyndar upphaflega hráfæðiréttur, en þegar sú eldri fékk þá snilldarhugmynd að prófa að baka það í ofni eins og hefðbundið lasagna, þá skutust bragðlaukarnir í nýja vídd. Og nú er rétturinn orðinn fastagestur á matseðlinum.
Við notum kúrbítssneiðar í staðinn fyrir pastaplötur, og útbúum tvær (fljótlegar) heimagerðar sósur. Sósurnar eigum við reyndar oft til í ísskápnum eða frystinum, því þær nýtast í svo margt annað. Þá tekur matreiðslan auðvitað enga stund. Við höfum líka prófað að svindlað smá og nota tilbúið Sollu-pestó í staðinn fyrir græna pestóið - til að útbúa máltíð á ólöglegum hraða. Það bragðaðist mjög vel, en við mælum svo sannarlega með heimagerðu sósunum, þær eru virkilega ljúffengar.
Best er að byrja á því að gera sósurnar klára. Því næst er mál að skera kúrbítinn í mjög þunnar sneiðar. Þetta er auðvelt að gera með "peeler". Ef þið eigið ekki peeler er hægt að nota góðan ostaskera, það virkar ljómandi vel.
Svo er bara að byrja að raða í formið. Fyrst kemur eitt lag af kúrbít.
Síðan grænt pestó.
Svo annað lag af kúrbít og svo rauð sósa.
Svo er þetta bara endurtekið þar til fatið er orðið fullt. Þá má setja lasagnað inn í ofn og baka.
Að lokum stráum við heimagerðum hnetu"parmesan" yfir (má sleppa) og berum svo fram með góðu salati.
Uppskriftin
Grænt pestó
1 búnt fersk basilíka
25 g furuhnetur, þurrristaðar
25 g kasjúhnetur, þurrristaðar
1 stk hvítlauksrif
smá sjávarsalt
1 msk sítrónusafi
1 msk næringarger
1 daðla, smátt söxuð
½ - ¾ dl lífræn jómfrúar ólífuolía
Byrjið á að setja allt nema ólífuolíuna í matvinnsluvél eða mortél og maukið/merjið, setjið í skál og hrærið ólífuolíunni út í og klárið að blanda saman.
Rauð sósa
2 stórir tómatar, steinhreinsaðir og skornir í bita
1 rauð paprika, steinhreinsuð og skorin í bita
100 g sólþurrkaðir tómatar (semisecchi í ólífuolíu eru dásamlegir)
2-3 döðlur (má sleppa ef þú ert á sykurlausum kúr)
½ dl lífræn kaldpressuð ólífuolía
2 hvítlauksrif, pressuð
¾ tsk sjávar salt, eða eftir smekk
smá cayenne pipar
2 msk smátt saxaður ferskur basil eða 2 tsk þurrkað
2 tsk oregano
Setjið allt innihald tómatsósunnar, nema ferska kryddið í matvinnsluvél og blandið vel saman – en látið hana samt vera “smá chunky”. Bætið ferska kryddinu útí og blandið saman.
Plöturnar
2 stórir kúrbítar, skornir í þunnar sneiðar með peeler eða ostaskera.
Hnetuparmesan
1 dl valhnetur
2 msk næringarger
1 hvítlauksrif
smá salt
Setjið allt í matvinnsluvél og malið þar til líkist parmesanosti.
Aðferðin
- Útbúið báðar sósurnar
- Skerið kúrbítana í þunnar plötur með peeler eða ostaskera
- Raðið öllu í eldfast mót, eins og sýnt hér fyrir ofan. Kúrbítur - grænt pestó - kúrbítur - rauð sósa - kúrbítur - grænt.....osfrv.
- Bakið við 200°C í 15-20 mín - gott að kíkja eftir 15 mín og meta hvort það þurfi 5 mín í viðbót. Fer svolítið eftir þykktinni á kúrbítsplötunum.
- Stráið jurtaparmesan yfir, ef vill
- Berið fram með góðu salati
- Njótið í rólegheitum
Uppskrift af vef maedgurnar.is