Hugmynd að kvöldmat á sunnudegi.
Úrbeinað lambalæri:
- Lambalærið er úrbeinað með því að skera mjaðmabeinið og hálfan legginn burt en smá hluti leggsins er skilinn eftir. Til eru leiðbeiningar á netinu sem er hægt að kíkja á hvernig á að úrbeina lambalæri. Beinin notar maður til að búa til soðsósu.
- Þegar búið er að úrbeina er skorið í vöðvann og kjötið flatt út þannig að kjötið verður allt svipað á þykkt.
- Kjötið er svo brúnað í smjöri eða ghee og kryddað á pönnunni með himalayan salti og pipar.
- Þá er það penslað bæði að utan og innan með góðri hvítlauksolíu og kryddað með kryddi eftir smekk. Gæti verið rósmarín, timian, einiber…
- Kjötið er svo vafið saman eða lagt saman, jafnvel bundið saman og sett í svartan ofnpott.
- Kjötið er sett í ofninn án þess að setja lokið á pottinn og brúnað við 180 gr í ca. 15-20 mínútur.
- Þá er hitinn lækkaður í 100 gr. og lokið sett á og látið malla í ofninum í rúma 2 tíma.
- Síðan er lokið tekið af, soðið í pottinum notað í sósugrunninn og kjötið látið aftur inn í ofninn við 180 gr. án þess að setja lokið á í ca. 15-20 mínútur.
Sósan:
- Leggirnir og mjaðmabeinið sem voru úrbeinuð úr lærinu eru brúnuð í smjöri/ghee í stórum potti.
- Út í það er svo sett laukur, gulrætur, púrrulaukur, sellerí, hvítlaukur og það grænmeti sem er að verða slappt í ísskápnum, nema kál.
- Síðan er 1 lítra af vatni bætt út í pottinn og hollum grænmetiskrafti eftir smekk og þetta soðið til að fá kraft í sósuna. Því lengur sem þetta er soðið því betra og jafnvel gott að gera daginn áður ef lærið er úrbeinað deginum áður en á að bera fram.
- Soðinu af kjötinu í svarta ofnpottinum er bætt út í sósupottinn.
- Soðið af beinunum er síðan sigtað og þykkt eftir smekk með maizena mjöli.
- Smá rjóma bætt út í í restina og smökkuð til með salti og pipar.
Borið fram með því meðlæti sem hugur girnist. Við tókum þetta hefðbundna, sykurbrúnaðar kartöflur (það eru nú einu sinni páskar), rauðkál, Ora grænar, grænt salat og að sjálfsögðu rabbarbarasultan hennar mömmu. Það besta við að elda í sveitinni er að allir taka þátt stórir og smáir eins og sjá má. Gleðilega páska.
Le Chef
Viðar er blessunarlega í fjölskyldunni minni, maður systur minnar. Hann er kokkur af guðs náð og það er dásamlegt að fylgjast með honum í eldhúsinu. Hann er líka frábær kennari og hefur kennt mér allt sem ég veit um í sambandi við þessa vefsíðu mína og án hans væri hún ekki til. Fyrir það er ég honum óendanlega þakklát.
Ef þú vilt hafa samband við mig er netfangið mitt: valdis@ljomandi.is
Ég vona að ykkur líki ljómandi vel.
Bestu kveðjur, Valdís.