Hér er til að mynda kominn dásamlega styrkjandi drykkur sem inniheldur mangó og engifer, gúrku og sellerí! Sannkölluð ónæmissprengja sem er frábær í baráttunni við haustflensuna, orkar hreinsandi á nef- og ennisholur og róar viðkvæman maga. Sítrónusafinn er sneisafullur af C-vítamíni og hjálpar líkamanum að afeitrast en gúrkan og smátt skorinn sellerístöngullinn eru ekki bara frískandi á bragðið, heldur einnig auðug af K-vítamíni sem einnig er líkamanum nauðsynlegt að innbyrða.
1 bolli sellerí – fínt saxað
1 bolli fersk steinselja
2 bollar vatn
1 agúrka, afhýdd og smátt skorin
Bútur af ferskri engiferrót, smátt skorinn eða raspaður
3 bollar af mangó – smátt skorið
1 sítróna, afhýdd og steinhreinsuð
Byrjið á því að blanda sellerí, steinselju og vatni saman – allt þar til blandan er orðin áferðarfalleg og kekkjalaus. Setjið því næst agúrkuna, fínrifna engiferrótina, mangóávöxtinn og sítrónuna í blandarann og hrærið öllu saman.
Dásemd er að bæta frosnum ávöxtum (t.a.m. frosnu mangói) út í blönduna!