Hvað er frjónæmi?
Frjókorn eru karlkynsfrjóefni plöntunnar. Það eru vindfrjóvgaðar plöntur, svo sem grös og birki, sem dreifa mestu frjómagni. Skordýrafrjóvgaðar plöntur geta þó valdið ofnæmi, ef aðstæður eru sérstakar, t.d. ef blómvendir eru teknir inn í hús. Frjókornin eiga greiðastan aðgang að símhúð nefsins, en þau berast einnig í augun og valda kláða í húðinni.
Mikil einkenni geta
leitt til nefstíflu og
munnöndunar sem
aftur getur leitt til
astma þegar líður á
sumarið.
Í hverju frjókorni eru nokkrir ofnæmisvakar (prótínsameindir), sem líkja mætti við flækjur í bandhnykli. Ofnæmisvakarnir kalla fram mótefnasvörun hjá þeim sem eru með ofnæmi. Mótefnin eru af svokallaðri IgE gerð. Þau berast um líkamann með blóðrásinni en hafa sérstaka tilhneigingu til að festast á yfirborð svonefndra mastfruma, sem mikið er af í húð og slímhúðum. Mastfrumur eru sannkallaðar púðurtunnur. Þær innihalda fjölda æðavirkra efna og efna sem draga saman slétta vöðva, auk boðefna, sem m. a. kalla til bólgufrumur. Þekktast þessara efna er histamín. Raki slímhúðarinnar dregur ofnæmisvakana úr frjókornunum þannig að þeir geta tengst mótefnunum. Við það losna histamín, og önnur virk efni í mastfrumunni, úr læðingi og ofnæmisviðbrögð eiga sér stað. Þetta gerist á fáeinum mínútum, og því er þetta kallað bráðaofnæmi.
Í byrjun frjókornatímans er tiltölulega lítið af mastfrumum í slímhúðinni, en þeim fjölgar eftir því sem líður á sumarið, einkum hjá þeim sem fá ófullnægjandi meðferð. Með fjölgun mastfrumanna verða einkennin verri og verri, jafn vel þótt frjómagnið í andrúmsloftinu haldist óbreytt. Þar við bætist að ef nefið er stíflað er óhjákvæmilegt að anda með munninum, og þá berast frjókorn niður í lungun.
Einkenni og greining
Einkennin eru fyrst og fremst frá nefi og augum. Kláði er afar áberandi, bæði í nefi og augum, sem og hnerrar, nefrennsli og roði í augum. Þegar einkenni eru mikil eða meðferð ófullnægjandi er nefstífla einnig áberandi. Það leiðir til munnöndunar og getur leitt til astma, einkum þegar líður á sumarið. Þegar einkennin eru sem verst myndast bjúgur í slímhimnu augnanna, stundum svo mikill að erfitt er að loka augunum. Oft er kláði í gómnum og út í eyrun. Sumir fá svonefnt ofnæmisheilkenni í munni (oralallergy syndrome). Það einkennist af miklum kláða í gómnum, koki og í eyrum við að borða ákveðna fæðu. Stundum eru þessi einkenni þó ennþá alvarlegri og jafnvel bráðhættuleg. Þau eru algengust hjá þeim sem hafa ofnæmi fyrir birki, en koma fyrir við grasofnæmi og latexofnæmi. Það eru oftast ávextir sem valda svona einkennum, en trjáhnetur og grænmeti geta einnig valdið þeim. Orsök þessa sérkennilega fyrirbæris er sú að viðkomandi fæða inniheldur nákvæmlega eins prótínsameindir og ofnæmisvakar frjókornanna.
Bólga í nefi er afar algengt vandamál, og hjá fullorðnum er ofnæmi ekki orsök nema hjá um helmingi sjúklinganna. Einkenni frjónæmis eru töluvert öðruvísi en einkenni af venjulegu kvefi.
Einkenni frjónæmis fara mikið eftir veðurlagi og tíðarfari og þau eru verst þegar mikið frjómagn er í loftinu. Yfirleitt er hægt að greina frjónæmi af einkennunum, en ofnæmið er staðfest með húðprófum (pikkprófum) eða með því að mæla IgE mótefni í blóðprufum fyrir einstökum ofnæmisvöldum.
Frjónæmi á Íslandi
Frjónæmi, eins og raunar annað bráðaofnæmi, er sjúkdómur ungs fólks. Það byrjar gjarnan hjá börnum og unglingum, og fylgir þeim langt fram á fullorðinsár, en getur þó vissulega byrjað hjá fólki á miðjum aldri.
Vitað er að ofnæmissjúkdómar hafa aukist mikið á undanförnum 50-60 árum hjá þeim þjóðum, sem búa við velmegun. Í fjölþjóðlegri rannsókn, sem fram fór 1990 kom í ljós að minna var um ofnæmi hjá ungu fólki og miðaldra á Íslandi heldur en í Evrópu vestan járntjaldsins. Þá voru 12% á aldrinum 20-25 ára með jákvæð húðpróf fyrir grasfrjóum en töluvert færri í eldri aldurshópum. Þetta benti til þess að frjónæmi væri að aukast. Árið 2000 voru 19% tíu ára barna með jákvæð húðpróf fyrir grasfrjóum, og í könnun árið 2008 voru 30% einstaklinga 21 árs með jákvæð húðpróf fyrir grasfrjóum. Þannig virðist mikil aukning hafa átt sér stað á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar. Allar þessar tölur miðast við þéttbýlið í Reykjavík og nágrenni.
Ofnæmi fyrir birki er miklu minna, eða um 3-4%. Það er andstætt því sem er á Norðurlöndum, þar sem fleiri eru með birkiofnæmi en grasofnæmi.
Meðferð
Betra er heilt en vel gróið, og það er best þegar hægt er að forðast það sem ofnæminu veldur. Þetta er þó ekki svo auðvelt við frjónæmið. Auðvitað mætti hugsa sér að fara á togara á Reykjaneshrygg, eða ráða sig sem skálavörð á Sprengisandi yfir hágróðurtímann, en þetta hentar þó fæstum og allra síst börnum og unglingum. Hægt er að tileinka sér ýmis hollráð til að draga úr einkennum, eins og að halda sig innandyra þegar líkur eru á miklu frjómagni í andrúmsloftinu, að forðast að vera í óslegnu grasi og halda sig fjarri sláttumönnum. Þótt ekki sé það skemmtilegt getur verið rétt að sofa við lokaðan glugga þegar vel viðrar, og í ökuferðum er rétt að hafa alla glugga bílsins lokaða. Ekki er heldur rétt að þurrka þvott utandyra á þessum tíma. Forðast ber að nudda augun nema þvo hendur og augnlok áður.
Ofnæmissjúkdómar
hafa aukist mikið
á undanförnum
50-60 árum hjá
þjóðum sem búa
við velmegun.
Langflestir með gróðurofnæmi þurfa á einhverri lyfjameðferð að halda. Í grunninn eru oftast notuð lyf sem upphefja áhrif histamíns, sem áður var nefnt. Það eru andhistamíntöflur. Á markaði hér á landi eru nokkrar tegundir, og sumar undir fleiru en einu nafni. Fyrsta kynslóð þessara lyfja olli þreytu og svefndrunga, og er ekki lengur mælt með því að þau lyf séu notuð við gróðurofnæmi. Önnur kynslóð þessara lyfja er í flestum tilfellum laus við þessa hjáverkun og þolist vel. Lyfin hafa dreifða verkun um allan líkamann og slá vel á einkenni bæði frá nefi og augum.
Þegar líður á frjótímann og viðkvæmni slímhúðarinnar eykst er þó algengt að bæta þurfi við bólgueyðandi sterum, sem gefnir eru sem nefúði. Það á við um báða þessa lyfjaflokka að eftir að byrjað er að nota þá er best að taka lyfin á hverjum degi þar til frjótímanum lýkur. Stundum eru einkenni frá augum mjög óþægileg þrátt fyrir þessa meðferð og má þá bæta við augndropum, sem annað hvort eru andhistamínlyf eða lyf sem virka beint á mastfrumur og draga þannig úr ofnæmisviðbrögðum. Augndropana má nota eftir þörfum og þarf ekki að taka þá að staðaldri eins og hin lyfin.
Ef lyfjameðferð, eins og hér hefur verið lýst, dugar ekki er stundum gripið til þess ráðs að gefa langvirkandi barkstera, sem sprautað er í vöðva. Áhrifa þeirrar meðferðar gætir í 3-6 vikur. Þessi meðferð er öflug en hana ætti þó aðeins að nota í undantekningartilfellum vegna óæskilegra áhrifa af langvarandi sterameðferð.
Nota má ferðalög til
útlanda til að forðast
frjókornahámark
á Íslandi, sem er
seinna á ferð hér en
sunnar í álfunni.
Í rúm hundrað ár hefur afnæming verið notuð sem meðferð við frjónæmi. Þessi meðferð hefur gefið góða raun bæði við grasofnæmi og birkiofnæmi. Hún felst í því að gefa sprautur undir húð með vaxandi skömmtum af ofnæmisvökum.
Í byrjun eru sprauturnar gefnar á viku fresti í 16-18 vikur en eftir það á sex vikna fresti í þrjú til fjögur ár. Af þeim sem ljúka þessari meðferð fá um 80% töluverðan eða mjög góðan bata, sem stundum er varanlegur en helst annars í nokkur ár. Þessi meðferð er vandasöm og þarf að vera í höndum fagfólks. Þrátt fyrir það geta komið upp alvarlegar aukaverkanir sem strax þarf að bregðast við. Hún er ekki mjög mikið notuð af þeirri ástæðu og því hversu tímafrek hún er.
Á síðustu áratugum hafa margskonar rannsóknir farið fram á ýmsum afbrigðum afnæmismeðferðar. Óskastaðan væri sú að hafa bóluefni, líkt og við mænusótt, sem ekki þyrfti að gefa nema nokkrum sinnum og sem væri hættulaust og gæfi fullkomna vörn gegn ofnæminu. Enn mun nokkur bið eftir slíkri meðferð. Hins vegar hefur ný aðferð verið þróuð við afnæmismeðferð, sem felst í því að gefa ofnæmisvaldinn í töflu sem látin er renna undir tunguna. Hér á landi er skráð lyfið Grazax, sem gefið er með þessum hætti. Það er tekið daglega allt árið um kring í þrjú ár, og árangur er góður. Helsti kostur þessarar meðferðar er að sjúklingurinn fær hana heima hjá sér í stað þess að fara á læknamóttöku. Aðal ókosturinn er hversu dýr hún er. Á slóðinni www.ni.is má finna nánari upplýsingar um frjókornamælingar á Íslandi.
Grazax inniheldur ofnæmisvaka frá vallarfoxgrasi, en vallarfoxgras hefur mikið krossnæmi við aðrar grastegundir, og því hafa töflurnar áhrif á allt grasofnæmi.
Frjónæmi og ferðalög
Einkenni um gróðurofnæmi er oftast vægara á Íslandi en í flestum löndum Evrópu, nema þá í lok júlí og fyrrihluta ágúst. Þetta er þó mjög breytilegt vegna óstöðugrar veðráttu hér á landi. Þegar ferðaáætlun er gerð fyrir sumarfrí í öðrum löndum er mikilvægt að taka með í reikninginn hvenær frjótíminn er í því landi sem fara á til. Það er t. d. ekki skynsamlegt að fara til Spánar eða Portúgal í júní, þegar frjómagn þar er í hámarki. Í Evrópu eru grasfrjóin í hámarki frá 20. maí til 10. júlí, nema á Norðurlöndum, þar sem frjótíminn er nokkru seinna á ferð. Það er skynsamlegast að ferðast til Evrópu á þeim tíma þegar einkennin eru í hámarki hér á landi, því þá er mjög farið að draga úr frjómagni í Evrópu. Á sama hátt gætu ofnæmissjúklingar í Evrópu leitað sér skjóls hér á Íslandi, þegar frjómagnið er í hámarki í þeirra heimalandi.
Heimildir: sibs.is