Erindin voru af margvíslegum toga og m.a. fjölluðu tveir læknar um heilsubrest vegna rakaskemmda, aðili sem hafði lent í veikindum vegna rakaskemmda sagði frá upplifun sinni. Þá fjölluðu fulltrúar Íslandsbanka frá því þegar mygla fannst í húsnæði þeirra við Kirkjusand og hvaða viðbragðsáætlun fór í gang í kjölfarið. Fagstjóri bygginga frá Mannvirkjastofnun fjallaði um leiðir að bættu eftirliti mannvirkjahönnunar. Þá fjölluðu starfsmenn EFLU um greiningu rakaskemmda og fyrirbyggjandi aðgerðir þar að lútandi.
Í ráðstefnulok voru opnar umræður varðandi rakavandamál í byggingum og áhrif þess út frá heilsufarslegum og efnahagslegum sjónarmiðum. Virtust flestir ráðstefnugestir vera sammála um að rakavandamál bygginga á Íslandi væri alvarlegt vandamál og yrði að leita leiða til að bregðast við því. Því miður virðist þó enn vera töluverð mótstaða meðal hagmunaaðila og í samfélaginu að viðurkenna vandamálið. Rætt var um minnisblað um einangrun útveggja sem sérfræðingar á sviði rannsókna og bygginga útbjuggu. Þar var fjallað um vinnuaðferð, sem enn er viðhöfð í sumum nýbyggingum, um að einangra steypta veggi að innan með steinull í málmgrind og gataðri rakavörn væri kolröng og væri ávísun á raka- og mygluvandamál. Þá veltu menn fyrir sér hvort banna ætti þessa aðferð og að uppbygging veggja með þessum hætti stæðist jafnvel ekki byggingarreglugerðir varðandi kuldabrúargildi.
Enn hefur ekki náðst víðtæk samstaða um að finna varanlegar lausnir við hönnun og framkvæmdum bygginga til þess að myglu- og rakaskemmdir nái ekki að myndast. Opinberir aðilar hafa ekki látið málið sig varða að nægilega miklu magni og er eftirliti því ábótavant. Mikilvægt er þó að hafa í huga að ábyrgð hönnuða, arkitekta, byggingaraðila, verkfræðinga og tæknifræðinga er mikil og verða þessir aðilar að huga enn frekar að betri hönnun og smíði bygginga.
Læknarnir sem fluttu erindi á ráðstefnunni fjölluðu m.a. um áhrif baktería í rakaskemmdu húsnæði á mannslíkamann og þau alvarlegu heilsufarsáhrif sem raki í híbýlum getur haft í för með sér. Vitnað var í rannsóknir til stuðnings málefnisins og rætt var um nýlegt lyf sem lofar góðu fyrir aðila sem veikjast vegna raka- og mygluskemmda.
Fjallað var einnig um það fjárhagslega tjón sem fólk verður fyrir þegar húsnæði þeirra verður fyrir skemmdum vegna raka og myglu. Oftast bæta tryggingar ekki tjónið og ekki eru til neinir samfélagssjóðir sem fólk getur leitað í vegna kostnaðar. Þá er ábyrgð fyrri húseiganda eða byggingaraðila lítil engin þegar upp kemst um rakavandamál í húsnæði.
Á hverju ári er fjárfest gríðarlegum fjárhæðum í byggingarframkvæmdir og er áætlaður árlegur kostnaður um 150 – 200 milljarðar. Hins vegar er lítið sem ekkert varið í rannsóknir á húsnæði og byggingum og af hverju er enn verið að byggja vitlaust í mörgum tilfellum. Það er ekki síður mikilvægt að skoða hvernig mismunandi byggingarhraði hefur áhrif á húsnæði. Einnig er það áhyggjuefni að hagsmunaaðilar virðast ekki veita nægt fjármagn í rannsóknir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum raka- og mygluskemmda.
Næstu skref eru að halda umræðunni gangandi og vinna að frekari forvörnum varðandi bætt vinnulag við byggingu og hönnun nýbygginga. Til þess þarf samhent átak allra hagsmunaaðila sem koma að byggingaframkvæmdum ásamt stjórnvöldum.
Grein af síðu efla.is