Ég man að sem krakki var lasagna einn uppáhalds maturinn minn. Í seinni tíð hef ég þróað uppskrift af einföldu vegan lasagna sem slær ávallt í gegn í matarboðum. Þeirri uppskrift deili ég með ykkur í dag.
Breyttar matarvenjur, eins og þegar fólk ákveður að hætta í sykri eða dýraafurðum, hafa vissulega áhrif á alla fjölskylduna og því þykir mér mikilvægt þegar ég gef frá mér uppskriftir að þær höfði til allra.
Nú er seinni vikan í 14 daga sykurlausu áskorun hafin og hvet ég þig að vera með áður en áskoruninni lýkur, til að tryggja þér uppskriftirnar og byrja árið með heilbrigðum lífsstíl fyrir þig og fjölskyldu þína! Smelltu hér til að skrá þig og nýta þér uppskriftirnar og ráðin sem ég gef. Þannig getur þú komið þér af stað í að minnka sykurneyslu, auka orku og vellíðan!
Sykur leynist víða í matargerð enda er sykur gjarnan notaður til að framlengja hillulíf matvara. Algeng matvara sem inniheldur sykur eru tómatvörur.
Í lasagna uppskriftina nota ég hreint tómatpassata og tómatpúrru og blanda því saman í blandara með kryddum, úr kemur bragðgóð tómatsósa. Ef tími gefst er einnig gott að sjóða lauk og hvítlauk á pönnu og blanda því við, þá verður sósan enn bragðbetri.
Ég nota sveppi og kúrbít í mitt lasagna en einnig má nota eggaldin eða gulrætur með eða í staðinn. Ef þið viljið bæta við hreinu hakki eða vegan hakki er það einnig hægt. Fyrir vegan hakk mæli ég með að nota hreina Oumph! bita sem þið kryddið t.d með eðalkryddi frá Pottagöldrum og saxið örlítið niður. Oumph fæst í Nettó.
Uppskrift fyrir: 4-6
Undirbúningstími: 30 mín
Eldunartími: 45-50 mín
Hreinar lasagnaplötur (t.d úr grófu spelti frá Naturata, þær fást í Nettó)
Pastasósa: (sjá hollráð neðar fyrir keypta sósu)
2 saxaðir tómatar í dós (1x800 gr dós)
1 msk ólífuolía
6-8 hvítlauksgeirar, pressaðir
1 rauðlaukur eða skalottulaukur, smátt saxaður
handfylli fersk basilíka
oreganó krydd
salt og pipar
Grænmetið:
1 kúrbítur
2 kassar sveppir
1 msk ólífuolía
½ tsk hvítlauksduft
salt og pipar
Blómkálsostur: (sjá hollráð neðar fyrir keyptan ost)
2 ¼ bolli blómkál
1 ½ bolli afhýddar möndlur eða kasjúhnetur
1-2 tsk salt
½ bolli ólífuolía
3 msk næringarger (byrjið á 2 msk og smakkið til, bætið við 1 msk í viðbót ef þið viljið)
Kvöldið áður:
Flýtið fyrir og sjóðið blómkálið, svo er öllu skellt í blandara eða matvinnsluvél daginn eftir.
1. Hitið ofninn við 180 gráður.
2. Byrjið á að útbúa pastasósuna. Lesið hollráð hér neðar fyrir fljótlegri sósu en þessi sósa hér er aðeins bragðsterkari. Byrjið á að saxa rauðlauk og hvítlauk og mýkja á pönnu með ólífuolíu. Kryddið. Hellið tómötum úr dós yfir og leyfið þessu að malla í 30 mín. Saxið þá væna lúku af basilíku og hendið útí. Leyfið að malla í smá tíma og bætið ef til vill aðeins af vatni ef þarf.
3. Á meðan má útbúa blómkálsostinn. Sjóðið vatn í potti og þegar suðan hefur komið upp bætið útí blómkáli og hnetum, mér fannst gott að saxa möndlurnar örlítið. Mikilvægt er að nota afhýddar möndlur (möndlu án hýðis), annars kasjúhnetur. Þegar suða er komin upp er upplagt að setja á tíma, c.a. 15 mín eða þar til blómkálið hefur mýkst upp. Þegar blómkálið er soðið hellið mesta vökvanum frá pottinum og setið blómkálið og möndlurnar í sigti til að taka restina af vatninu, leyfið að kólna aðeins og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnum.
4. Fyrir grænmetið. Skerið sveppi í þunna strimla og setjið á ofnplötu. Kryddið með hvítlauksdufti, ólífuolíu og smá salti og pipar og eldið á bökunarplötu með bökunarpappír í 15 mín við 180 gráður.
5. Skerið einnig kúrbít í þunna strimla, ég notaði mandolín til að skera. Kryddið eins og setjið á aðra ofnplötu og eldið með sveppunum í 10-15 mín.
6. Sameinið allt, Takið eldfast mót og setjið allt saman í þessari röð:
ólífuolía neðst
pastasósa
sveppi og kúrbít
lasagnaplötur
möndluostur
sveppi og kúrbítur
pastasósa
lasagnaplötur
möndluostur
..og endurtakið þar til hráefnin eru búin. Efst ætti að vera pastasósa.
7. Eldið við 180 gráður í 45-50 mín. Skreytið með ferskri basilíku og smá möndluosti og berið fram! Frábært með salati með ólífum!
Ég vona að þú prófir uppskriftina, en auðvelt er að útbúa lasagnað kvöldinu áður og skella því síðan í ofninn þegar þú kemur heim eftir vinnu!
Sláðu svo til og vertu með okkur í sykurlausu áskoruninni! Áskorunin snýst ekki um að vera fullkomin/n, heldur að hver og einn taki sykurleysið eins langt og þau treysta sér. Smelltu hér fyrir ókeypis þátttöku! Endilega deilið á samfélagsmiðlum.
Þar til næst,
Heilsa og hamingja,