Þessa pestó uppskrift sá ég fyrir löngu síðan á uppáhalds síðunni minni sem hann heldur úti hann Sweet Paul sem er norskur matarstílisti. Ég lét loks verða af því að gera það og var sko alls ekki illa svikin. Alveg magnað pestó sem er hægt að nota með nánast hverju sem er. Hvet ykkur til að prófa þetta pestó því það er alveg himneskt og ótrúlega mjúkt og gott.
Rauðrófupestó
2 rauðrófur meðalstórar(soðnar eða bakaðar)
3 hvítlauksgeirar pressaðir
100 gr rifinn parmesanostur
100 gr kasjúhnetur eða furuhnetur
1 lúka basilika
2 dl ólífuolía
salt og pipar eftir smekk
Byrjið á því að gera pestóið. Þið þurfið að baka eða sjóða rauðrófurnar áður. Afhýðið rauðrófurnar og skerið í litla bita og setjið í eldfast mót og bakið þær í 30 mínútur við 200°C. Látið þær kólna áður en þið gerið pestóið. Síðan er bara að setja allt hráefnið saman í blandara og maukið þangað til það er mjúkt og gott. Smakkið til og kryddið síðan eftir smekk.
Flatbrauð
5 dl hveiti
1 msk salt
1 msk lyftiduft
500 ml hreint jógúrt
Blandið öllu hráefninu saman í matvinnsluvél og takið síðan upp úr og hnoðið saman. Að því loknu skulu þið skipta deiginu þannig að það hvert brauð verið gert úr kúlu sem er svona eins og lófafylli og fletjið út mjög þunnt í hring eða egglaga. Hitið grillpönnu við miðlungshita og bakið brauðið á þurri pönnunni í 2-3 mínútur á hvorri hlið.
Kjúklingur
3 kjúklingabringur(eða 1 á mann)
Curry & coconut sinnep frá Nicolas Vahé
3 msk mangó chutney
1 msk síróp
Blandið saman sinnepinu, mangó chutney og sírópi og setjið á kjúklinginn – setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í 200°C heitann ofninn í 30 mínútur eða þangað til að þær eru eldaðar í gegn.
Nú svo er bara að smyrja brauðið með pestóinu og skera kjúklinginn í bita og raða honum á ásamt t.d. góðum osti eins og camembert og rucola eða bara því sem hugurinn girnist.
Þú finnur fleiri girnilegar uppskriftir frá Lólý með því að smella á borðann hér fyrir neðan.