Ricotta er ítölsk mjólkurafurð sem gerð er úr mysunni sem fellur til við ostagerð og telst hann strangt til tekið vera mjólkurafurð en ekki ostur. Ricotta er hægt að framleiða úr kúa-, buffala-, sauða- eða geitamjólk.
Á vefsíðunni minitalia.is má finna þessa dásamlegu uppskrift.
Ricotta er ítölsk mjólkurafurð sem gerð er úr mysunni sem fellur til við ostagerð og telst hann strangt til tekið vera mjólkurafurð en ekki ostur. Ricotta er hægt að framleiða úr kúa-, buffala-, sauða- eða geitamjólk. Á Ítalíu fæst ricotta í hinum ýmsu útfærslum, t.d. gerjaður, saltaður, bakaður og jafnvel reyktur. Ricotta er mikið notað í lasagna, sem fylling í cannelloni og ravioli og einnig í ýmsa eftirrétti, t.d. ostakökur.
Ricotta, sem þýðir „endursoðinn“ á ítölsku, verður venjulega til þegar mysan sem fellur til við aðra ostagerð er hituð upp á nýjan leik. Þannig er mjólkin nýtt til hins ýtrasta með því að ná út úr mysunni öllum þeim efnum sem nýst geta til ostagerðar. En það þarf mikið magn af mysu við framleiðslu á ricotta svo við notumst við mjólk í uppskriftina hér fyrir neðan. Það er líka hægt að nota 1/3 rjóma á móti 2/3 af mjólk við gerð ricotta ef maður vill hafa hanni ögn feitari. Hráefnin eru fá og aðferðin einföld en einungis þarf að hafa við höndina mjólk, salt og nýkreistan sítrónusafa til þess að sýra mjólkina. En það má nota bæði edik og súrmjólk til þess að sýra mjólkina án þess að það hafi nein áhrif á endanlega útkomu.
Hráefni
1) 1 lítri af mjólk 2) 1/2 tsk salt 3) Safi úr hálfri sítrónu eða 2 msk af 5% borðediki
Aðferð
1) Hellið mjólkinni ásamt klípu af salti í meðalstóran pott og hitið á lágum hita þar til hitastigið á mjólkinni nær 80 gráðum. Slökkvið þá undir pottinum. 2) Kreistið þá safa úr hálfri sítrónu og 3) blandið saman við mjólkina.
4) Látið standa í nokkrar mínútur og mjólkin fer þá skilja sig og verður kekkjótt. 5) Setjið sigti yfir góða skál. 6)Setjið svo bleyjuklút yfir sigtið.
7) Hellið því næst mjólkinni í gegnum sigtið og látið standa í 5 mínútur. 8) Hyljið ostinn með bleyjuklútnum, setjið hann inn í ísskáp og látið bíða þar í c.a. 3 klst. 9) Takið ricotta ostinn úr ísskápnum, hvolfið honum úr bleyjuklútnum á disk og herlegheitin eru tilbúin.
Þar sem ekki er hægt að ganga að því vísu að finna innfluttan ricotta í hillum íslenskra verslana er um að gera að bjarga sér og búa hann til sjálfur.
Heimagerður ricotta er dásamlegur og aðferðin bæði einföld og fljótleg.