Nigella hefur nú oft veitt mér innblástur áður og eru þessir þættir engin undantekning þar á. Einstaklega fallegir og næstum draumkenndir þættir. Ég er líka næstum viss um að ég þurfi nauðsynlega að fjárfesta sem fyrst í matreiðslubókinni sem þættirnir eru jú byggðir á.
Þessi himneska kaka er einmitt í einum af þessum þáttum og uppskriftina má finna í matreiðslubókinni Nigellissima. Ciambella eða jógúrt kaka er gamaldags ítölsk kaka sem er gjarnan borin fram í morgunsárið með einum sterkum espresso bolla. Það er sennilega ekki til það heimili á Ítalíu sem ekki lumar á uppskrift að Ciambella. Uppskriftin sem Nigella gefur er afar einföld vegna þess að eina mælieiningin sem hún notar er jógúrt dós (sem er 180 ml, það er líka hægt að nota mæliglas og mæla akkúrat 180 ml). Maður byrjar á að tæma jógúrtina úr dósinni og notar svo dósina til að mæla restina af hráefnunum. Virkilega skemmtilegt að baka þessa og útkoman er dásamleg, létt og mjúk, sumarleg kaka sem er gaman að bera á borð. Ég mæli með því að baka kökuna í kringlóttu formi með gati í miðjunni en ef þið eigið það ekki til má alveg baka hana í venjulegu kökuformi.
Byrjið á að aðskilja eggjarauðurnar frá eggjahvítunum. Setjið eggjarauðurnar í skál ásamt jógúrti og sykri og þeytið vel þannig að blandan verði loftkennd. Hellið olíunni þá rólega út í og þeytið á meðan. Sigtið þá þurrefnin útí og blandið vel saman við ásamt vanillunni og sítrónuberkinum. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru vel loftkenndar og stífar. Blandið eggjahvítunum varlega saman við kökudeigið. Hellið í létt smurt eða olíuborið form og bakið við 170 gráður með blæstri í 35 mínútur. Takið úr ofninum og leyfið að kólna örlítið áður en þið hvolfið kökunni á disk og stráið flórsykri yfir.
Uppskrift af vef eldhusperlur.com