Hvernig ég gat gleymt að setja þessa uppskrift inn skil ég ekki. Þetta, mín kæru, var sennilega eitt af stærri mataraugnablikum eldhúss Eldhúsperlna í sumar.
Fólk sem smakkaði féll í stafi og ég bíð eftir tækifæri til að baka þessar dásemdardúllur aftur. Ég gaf uppskriftina í Fréttablaðið og hún birtist minnir mig í byrjun ágúst sem ein af nokkrum hugmyndum fyrir mat í lautarferðir.
Þó að lautarferðartímanum sé nú sennilega lokið þetta árið get ég þó sennilega talið upp þúsund önnur tilefni þar sem brúnkurnar myndu stela senunni. Það sem meira er, þá er næstum jafn vandræðalega auðvelt að búa þær til eins og það er að borða þær. Ég biðst afsökunar á myndgæðunum. Myndirnar voru teknar á símann minn í flýti áður en ljósmyndari Fréttablaðsins mætti í heimsókn og myndaði herlegheitin og eftir það man enginn hvað gerðist.. nema að brúnkurnar kláruðust mjög fljótt. Þær eru blautar, seigar og stökkar, alveg eins og sannar brúnkur eiga að vera. Ekki einu sinni láta ykkur detta í hug að reyna að gera þær eitthvað hollari. Þetta er spari og ber að njóta.
Aðferð: Hrærið saman bræddu smjöri, púðursykri, nutella, kakó, vanillu og eggjum þar til alveg slétt. Hrærið hveitinu og saltinu saman við þar til rétt komið saman við deigið. Hellið í form (ég nota 20×26 cm form) og stráið hökkuðum heslihnetum jafnt yfir. Bakið við 170 gráður með blæstri í um 20 mínútur. Kakan á að vera dálítið blaut í miðjunni. Látið kólna í a.m.k. klst og skerið þá í bita. Ég þræddi brúnkurnar upp á spjóti með jarðarberjum, sem er til dæmis skemmtilegt fyrir lautaferðir eða aðrar uppákomur.
Birt í samstarfi við: