Fjölskyldan elskar allan mat með mexíkó bragði og er örugglega ekki ein um það. Þessi einfalda taco súpa er í miklu uppáhaldi.
Fjölskyldan elskar allan mat með mexíkó bragði og er örugglega ekki ein um það.
Þessi einfalda taco súpa er í miklu uppáhaldi. Hún er líka alveg sérlega einföld ef til er afgangur af nautahakki.
Þar sem ég er alltaf að reyna að minnka neyslu á kjöti og koma grænmeti inn í staðinn og þar af leiðandi er þessi súpa að mínu skapi. Smá kjöt en fullt fullt af grænmeti. Fyrir þá sem vilja sleppa kjöti er lítið mál að setja baunir í staðinn fyrir nautahakk, til dæmis Aduki baunir eða litlar brúnar linsubaunir.
Hráefni:
- 1 tsk kókosolía
- 1 laukur
- 4 gulrætur
- 1 sellerí stöngull
- 1 rauð paprika
- 2 hvítlauksgeirar
- 3 msk tómatmauk
- 400 ml maukaðir tómatar
- 1 liter vatn
- 1 msk grænmetiskraftur
- 1 tsk paprika
- 1 tsk cumin
- 1 tsk laukduft
- 1 tsk cajun bbq frá Pottagöldrum
- 3 dl eldað nautahakk
- 1 msk kókospálmasykur
- fersk steinselja
- salt og pipar
- 1 litri vatn
Aðferð:
- Byrjið á því að elda hakkið ef þið búið ekki svo vel að eiga afgang inni í ísskáp. Kryddið kjötið eftir smekk. Ef þið notið baunir í stað kjöts, gerið þið baunirnar klárar, takið þær tilbúnar úr frysti eða opnið dósina og skolið þær.
- Brytjið niður allt grænmetið.
- Hitið olíu í potti, leyfið lauknum að malla í smástund við lágan hita.
- Bætið gulrótum saman við ásamt selleríinu og að lokum paprikunni (paprikan þarf minni tíma).
- Bætið tómötum, tómatmauki, kryddi saman við ásamt vatni og leyfið súpunni að malla í u.þ.b. 10 mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Bætið kjötinu saman við (eða baununum), fersku steinseljunni og kryddið með salti og pipar.
- Það er mjög vinsælt að mylja nokkrar Lífrænar maísflögur yfir súpuna.
Hér er mynd af þessari dásemdar súpu með baunum
Prófið að setja avakadó yfir súpuna, það er mjög gott og bætir upp að það er engin ostur er yfir súpunni.
Þessir kraftar finnst mér æðislegir þar sem ég er ekki það dugleg að búa til mín eigin soð en þeir eru án gers og aukaefna. Bæði til nautakraftur, kjúklinga, grænmetis og margt fleira.
Uppáhalds kryddin mín:
Og keramik potturinn rauði hækkar alltaf hamingjustigið örlítið á hverjum degi þegar ég stend yfir pottunum
Í flestum heilsubúðum og heilsuhillum stórmarkaða er hægt að fá þessar lífrænu nachosflögur sem þýðir að þær innihalda ekki erfðabreyttan maís.
Það er nú alveg veðrið í dag fyrir svona kraftmikla haustsúpu, hver haustlægðin á fætur annarri. En það þýðir víst ekkert að kvarta yfir því, bretta bara upp ermarnar, kveikja á kertum og búa til súpu.
Verði ykkur að góðu !
Uppskrift af vef heilsumamman.com