Síðan hugmyndin um að skrifa matreiðslubókina Lifðu til fulls kviknaði hjá mér hef ég verið gríðarlega lánsöm að fá að kynnast fleirum í þeim geira og þar á meðal er hann Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ragnar, eða Læknirinn í eldhúsinu eins og hann er oft kallaður, hefur gefið út þrjár matreiðslubækur. Ragnar hefur einstaka ástríðu fyrir eldamennsku og er nýfluttur aftur til Íslands með fjölskyldu sinni eftir að hafa verið búsettur erlendis og eins og sjá má á myndum hérna síðar að þá er hann strax búinn að koma sér vel fyrir í eldhúsinu á nýja staðnum.
Ragnar hefur einstakt lag á að vera bæði jákvæður og hress og þegar ég settist fyrst niður með honum yfir kaffibolla (eða Reishi cappuccino sætað með steviu à la Gló í mínu tilfelli) kom það fljótt í ljós hvað hann er mikill fjölskyldumaður og matgæðingur.
Hann deilir hér matarvenjum sínum með okkur ásamt því að vippa fram einni uppskrift úr nýjustu bók sinni.
Hvenær kviknaði áhuginn á eldamennsku?
Áhugi minn á mat og matseld kviknaði snemma. Ætli ég hafi ekki verið 10-12 ára gamall þegar foreldrar mínir settu okkur bræðrunum fyrir verkefni að elda einu sinni í viku. Þetta fór þannig fram að við fengum að velja hvað ætti að vera í matinn, kaupa inn, elda hann og ganga frá. Við vorum bæði uppátækjasamir sem og praktískir í eldhúsinu þar sem við vissum að við þyrftum alltaf að ganga frá eftir að búið var að elda. Foreldrar mínir hafa alla tíð haft mikin áhuga á eldamennsku og eru þekkt fyrir að halda skemmtileg matarboð með vinum og vandamönnum. Þetta smitaðist yfir til okkar bræðranna. Þegar ég fór að búa með Snædísi, sömdum við um að ég myndi sjá um eldhúsið og hún um þvottinn. Þar voru eiginlega örlögin ráðin. Áhugamálið óx síðan með árunum, sérstaklega eftir að ég fór að blogga – þá fór maður eiginlega að keppast við að læra eitthvað nýtt til að greina frá á blogginu. Og þegar nýju aðferðirnar heppnast og maturinn verður dásamlega ljúffengur og lesendur taka vel undir þá veitir það manni innblástur til að halda áfram á vit nýrra ævintýra í eldhúsinu.
Hvað borðarðu oftast í morgunmat?
Ég fæ mér alltaf gott kaffi með smá skvettu af nýmjólk eða jafnvel rjóma ef vel liggur á mér. Stundum fæ ég mér soðin egg, steikt egg, hrærð egg eða jafnvel ommilettu – alveg eftir því hvað tíminn leyfir mér. Ef ég á gott súrdeigsbrauð er það náttúrulega auðvelt og ljúffengt val.
Fylgirðu einhverju sérstöku varðandi mataræði?
Ég borða náttúrulegan mat – og elda eiginlega allt sem ég get frá grunni. Ég reyni eins og ég get að kaupa mat sem liggur mér landfræðilega nálægt og jafnframt reyni ég að fylgja árstíðunum eins vel og ég get.
Hvernig helduru þér í formi?
Ég er alltaf að ströggla við að halda mér í formi og þar er matarnautn minni um að kenna. Ég reyni að stunda virkan lífsstíl, stunda veggjatennis og lyftingar nokkrum sinnum í viku.
Hvað finnst þér lykilatriði þegar kemur að mat og eldamennsku?
Eins og ég nefndi hérna að ofan þá finnst mér það algert lykilatriði að reyna að elda frá grunni. Ég þoli eiginlega ekki tilbúin mat og mat sem kemur í kössum troðfullum af aukaefnum til að lengja hillulífið. Ég hef líka algera óbeit á gosi og borða eiginlega aldrei sælgæti (með einstaka undantekningum).
Hvaða uppskrift ertu spenntastur að prófa úr bókinni Lifðu til fulls?
Það er fullt af spennandi uppskriftum í bókinni þinni, Lifðu til fulls! Ég mun án efa prófa nokkur af salötunum sem er að finna í bókinni. Svo ætla ég að prófa að gera flatbökuna með blómkálsbotninum sem mér finnst afar spennandi. Svo var líka hvítlaukssósa á bls. 141 sem mér finnst sérstaklega spennandi.
Hvernig reynist þér bókin og fyrir hvern finnst þér hún hæfa?
Það eru margar leiðir að betri heilsu. Að elda frá grunni úr náttúrulegum hráefnum er án efa ein besta leiðin. Bnniheldur fjölda fallegra og hollra uppskrifta sem geta stuðlað að bættri heilsu.
Hverja telur þú vera kosti þess að sleppa sykri og aðhyllast mataræði eins og er í bókinni Lifðu til fulls?
Ofneysla sykurs er sennilega orsökin fyrir þeim faraldri af offitu og tugum af afleiddum sjúkdómum t.d. sykursýki tegund 2, fitulifur og efnaskiptavillu. Það að takmarka sykurinntöku eins og framast er kostur er sennilega mikilvægasta skrefið í átt að betri heilsu. Í bókinni er fullt af skynsamlegum leiðum í átt að betri heilsu.
Getur þú gefið dæmi frá skjólstæðingi sem hefur breytt mataræðinu til hins betra?
Flestir sjúklingar sem ég sinni í mínu daglega starfi eru með gigtarsjúkdóm. Það er því miður lítið vitað um áhrif matarræðis á þessa sjúkdóma en mig grunar að margt eigi eftir að koma í ljós á næstu árum hvað það snertir. Sérstaklega varðandi matarræði og þarmaflóru okkar og hvernig það getur haft áhrif á heilsuna. Þegar matarræði kemur til tals, sérstaklega hjá ofþungum, háþrýstum, sykursjúkum með efnaskiptavillu ráðlegg ég öllum að skerða inntöku kolvetna eins og framast er kostur og ef á að neyta þeirra – neita grófra kolvetna sem frásogast hægt og hafa lítil áhrif á blóðsykurinn.
Ertu með einfalda og góða uppskrift frá þér sem þú vilt deila með okkur?
Þessi uppskrift er einföld og fljótleg og eitthvað sem ég veit að maðurinn þinn mun kunna að meta. Þessi uppskrift var í bókinni minni Grillveislan sem kom út núna í vor.
Gómsæt grænmetisbaka
4 rauðlaukar
4 hvítlauksrif
250 g sveppir
50 ml olía
2 kúrbítar
2 eggaldin
8 stórir tómatar
4 msk heimagerð hvítlauksolía
salt og pipar
Steikið helminginn í olíunni þar til laukurinn er mjúkur og farinn að taka á sig lit. Saltið og piprið og setjið í botninn á eldföstu móti sem það hafð smurt með hvítlauksolíu.
Hvað er framundan hjá þér og hvar getum við fylgst með þér?
Það er nóg um að vera hjá mér á næstu mánuðum. Ég mun halda upp á 10 ára afmæli Læknisins í Eldhúsinu þann 9. desember næstkomandi. Ég er fara að vinna í nýrri heimasíðu, ætla að prófa að taka upp myndbönd til að dreifa á síðunnni minni. Þá er ég einnig með hugmynd fjórðu bókinnni sem kemur kannski út á næsta ári.
Hér er hægt að sjá meira um nýjustu Bók Ragnars:
Læknirinn í eldhúsinu - Grillveislan
Ég vona að þetta hafi vakið áhuga hjá þér!
heilsa og hamingja,
Júlía heilsumarkþjálfi
ps. Ef þér fannst greinin áhugaverð, endilega deildu á Facebook!