Mánudagur: Grænmetisrétturinn að þessu sinni verður grænmeti, núðlur og hnetusósa. Ég er með algert æði fyrir kelp núðlum en það versta er að þær fást ekki allstaðar og í hverfisbúðinni minni hafa þær hreinlega ekki verið til í nokkrar vikur, svo ég gæti þurft að reyna í öðrum búðum.
Þriðjudagur: Ætli það verði ekki bara eggjabrauð á þriðjudaginn til að hafa smá fjölbreytni í þessum þriðjudags eggja máltíðum. Börnin elska eggjabrauð og ég sker niður grænmeti í lengjum til að borða með. Ég fæ mér oftast bara egg, sleppi brauðinu og bæti það upp með fullt af grænmeti. Á þriðjudögum er oftast lítill tími í eldamennsku og allir búnir að borða heitan hádegismat svo ég held að það skaði engan á borða stundum svona einfalt á kvöldin.
Miðvikudagur: Linsubaunabolognese með spelt spaghettí. Við erum 4 sem finnst þessi réttur alveg svakalega góður en ein segir alltaf "Ohhhhhhh, af hverju notaðirðu ekki KJÖÖÖÖÖT" (með áherslu)! Þar sem linsubaunirnar eru svo margfalt ódýrari en kjöt leyfi ég mér stundum að kaupa með þessu ferska basilíku og Piccolo tómata (sem við ELSKUM, hvernig er hægt að rækta svona góða tómata, ég bara spyr ?).
Fimmtudagur: Karrý-kókos grænmetissúpa/ kjúklingasúpa og fiskisúpa eru alltaf mjög vinsælar. Ætla að gera fiskisúpu í þetta skiptið því það er svo langt síðan ég hef haft fisk.
Föstudagur: Föstudagspizza og bíókvöld, skotheld tvenna og allir eru sáttir Spurning um að fara að taka mynd af föstudagspizzunni
Laugardagur: Það verður stuð á laugardaginn, Lína í leikhúsinu og svo má ekki gleyma úrslitunum í Söngvakeppni sjónvarpsins. Maturinn á laugardaginn er ekki komin á hreint ennþá en það verður alveg örugglega eitthvað voða gott.
Spurning að skella í tíramísú eftirrétt.
Sunnudagur: Mig langar að prófa nýjan rétt í þessari viku, hér er einn sem ég er búin að hafa augastað á lengi en aldrei eldað. Það eru mörg matarblogg sem ég fylgist með og hef gaman af að prófa hitt og þetta, eitt af þeim er gulur rauður grænn og salt. Miðað við lýsingarnar fæ ég bara strax vatn í munninn og hlakka til á sunnudaginn
Mynd tekin af grgs.is
Það er ekki víst að þetta gangi upp til að standast áskorunina og gæti þurft að endurskoða helgina eitthvað.
En við sjáum til, nú er bara að bretta upp ermarnar og búa til eitthvað úr því sem er til í skápunum heima. Eiga ekki allir svona skápa og skúffur sem innihalda eitthvað sem fer að nálgast endalaokadagsetningu og bíður bara eftir því að vera notað?
Eftir vinnu í dag ætla ég að bretta upp ermarnar og baka hrökkbrauð og búa til Snickersköku svona til að eiga eitthvað gott í frystinum, þannig get ég sussað á allar langanir þegar ég fer í búð og hugsað bara "þú átt snicerksköku í frystinum" og þá kem ég í veg fyrir að það detti ótrúlega girnilegt lífrænt súkkulaðistykki eða eitthvað svona biscotti úr Hagkaup ofan í körfuna.
Kveðja, heilsumamman.