Þær eru margar furðulegar fréttirnar sem berast að utan og vísa í alls konar rannsóknir á hinu og þessu í sambandi við líkama og heilsu og best að taka þeim flestum með ákveðnum fyrirvara.
Mér svelgdist til dæmis hressilega á morgunkaffinu mínu um daginn þegar ég sá þessa frétt hér á Heilsutorgi, um að nokkrir bjórar fyrir kynmök gerðu karla að betri elskhugum. Þetta er auðvitað slík reginfirra að mér dettur helst til hugar að rannsókn þessi hafi verið kostuð af einhverjum bjórframleiðanda. Allir sem hafa stundað bjórdrykkju og kynlíf hljóta að hafa reynslu af því að niðurstaða rannsóknarinnar stenst ekki.
Bjór er þungur í maga og gerir fólk silalegt og latt. Þess vegna er bjórinn heppilegri til þess að lepja yfir fótboltaleik og safna í bjórvömbina á meðan spengilegt fólkið á sparkvellinum hleypur á eftir boltanum. Bjór er í raun sú tegund áfengis sem gerir fólk síst sprækara í rúminu. Það mætti alveg eins segja að kókaín geri menn að betri elskhugum og heppilegt sé að fá sér línu fyrir mök.
Það er ekki nóg með að bjórinn geri menn þunga á sér og ekki mjög líklega til þess að ríða með einhverjum sérstökum tilþrifum og áhuga, heldur fylgir honum líka bölvaður óþefur sem getur seint talist sexí.
Og að halda því fram að bjórinn virki eins og viagra, stálherði liminn um leið og hann seinki fullnægingu, er bara geggjun. Vissulega er þekkt að mjög fullir karlar geti verið lengi að fáða, stundum svo lengi að hamagangurinn getur orðið þreytandi og rekkjunauturinn kominn í þá leiðinlegu aðstöðu að vera farinn að bíða eftir að fyllibyttan klári.
Þessi áhrif eru þó ekki langvarandi og þegar menn komast á miðjan aldur er heldur hættara við því að óhófleg drykkja verði til þess að þeir eigi erfiðara með að ná honum upp. Lítið gaman að því og ekki á það bætandi að hrúga risbömmer ofan á aðra drykkjubömmera.
Grunnurinn að góðu kynlífi er auðvitað gagnkvæm gredda og spenna sem má vel byggja upp yfir nokkrum drykkjum en þá eru 2-3 léttvínsglös eða sterkir kokkteilar alltaf heppilegri en bjórinn. Enda er bjór ekki sexí. Punktur. Báðir aðilar fá svo vitaskuld mest út úr kynlífinu ef þeir eru með sæmilegri meðvitund, ferskir og óþreyttir.
Bjórdrykkjumenn eru oftast þreyttir. Og þungir. Því segi ég: Minni bjór, meira kynlíf!