Lýsi er ekki fíkniefni
Nýlega voru birtar niðurstöður enn einnar rannsóknarinnar sem bendir til þess að áfengi sé góð forvörn þegar hjartasjúkdómar eru annars vegar. Eins og venjulega þykir rauðvín bera af öðrum tegundum áfengis sem forvarnalyf gegn hjarta- og æðasjúkdómum.
Að þessu sinni er það kaþólski háskólinn í Campobasso á Ítalíu sem gerði rannsókn á 802 manneskjum og niðurstaðan var sú að dagleg neysla áfengis í litlu magni fjölgi omega 3-fitusýrum í blóðinu. Eins og þekkt er er lýsi, eða fiskolía eins og Daninn kallar það, auðugt af omega 3 sem þykir góð forvörn gegn kransæðasjúkdómum, auk þess sem omega 3-sýrurnar þykja hafa góð áhrif á starfsemi heilans.
American Journal of Clinical Nutrition birtir niðurstöðuna og þar kemur fram að í þessu sambandi hafi rauðvín best áhrif og þá eitt glas á dag fyrir konur og tvö glös á dag fyrir karla. Sú niðurstaða, að dagleg neysla rauðvíns í litlu magni fyrirbyggi hjartasjúkdóma er ekki ný af nálinni og þessi framsetning, að hófleg áfengisneysla, sé hjartastyrkjandi er jafn vitlaus og þreytandi og venjulega.
Rauðvín er fíkniefni
Þegar rauðvín er borið saman við lýsi er nefnilega rétt að hafa í huga að rauðvín er hættulegt fíkniefni en lýsi ekki. Til dæmis þarf ekki að leggja áherslu á það við fólk að neyta lýsis í hóflegu magni. Einfaldlega vegna þess að hættan á því að einhver ánetjist lýsi og fari að ausa því í sig í óhóflegu magni alla daga er engin. Ég veit ekki til þess að neinn hafi þurft að leita sér hjálpar vegna ofneyslu lýsis, sturlast eða dáið af völdum hennar. Um áfengi, þar meðtalið rauðvín, gilda önnur lögmál. Hér er um fíkniefni að ræða og í ótal tilfellum kallar eitt glas á annað, og svo annað og annað þangað til flaskan tæmist og sú næsta er opnuð.
Sjálfur reyndi ég fyrir mörgum árum að nota rauðvín í þessum tilgangi enda mikið um háan blóðþrýsting og hjartasjúkdóma í ætt minni og hættan á arfgengi mikil. Ekki leið á löngu þar til rauðvínsglösin tvö voru orðin að tveimur flöskum á kvöldi og ég þurfti að fara í áfengismeðferð og var nærri því að missa lækningaleyfið. Blóðþrýstingurinn var kominn upp úr öllu valdi og ekki þarf að hafa mörg orð um hversu slæm áhrif þetta hafði á starfsemi heilans.
Bláber og lýsi
Þótt rauðvín sé auðugt af andoxunarefnum og auki magn omega 3 í blóðinu er það ekki lyf, ekki bætiefni, heldur fíkniefni. Það fýkur í mig þegar ég sé rannsóknir eins og þessa birta, ábyrgðarlaust, þar sem rauðvíni er hampað sem hjartalyfi. Lýsi verður alltaf heppilegra en rauðvín til þess að keyra upp omega 3 í líkamanum og bláber eru til dæmis auðug af andoxunarefnum.
Engar rannsóknir benda til þess að alkóhólistar séu sólgnari i lýsi og bláber en annað fólk og engum sögum fer af skaðlegri ofneyslu lýsis og bláberja. Allt tal um heilsusemi rauðvíns er líklegra til þess að freista alkóhólista og færa þeim kærkomna afsökun fyrir því að fá sér í glas, frekar en að stuðla að bættri lýðheilsu og draga úr hættunni á hjartasjúkdómum.