Fara í efni

Hættum að reykja með Dr. Hannibal

Tóbaksreykingar eru subbulegur og skaðlegur ávani sem hefur alls konar leiðinleg áhrif á líkamann og í verstu tilfellum flýta þær fyrir dauða þess sem reykir. Þær eru ofboðslega ávanabindandi en því miður er mjög gott að reykja, þannig að það er meiriháttar mál að hætta.
Það getur verið erfitt að losa sig við retturnar.
Það getur verið erfitt að losa sig við retturnar.

Tóbaksreykingar eru subbulegur og skaðlegur ávani sem hefur alls konar leiðinleg áhrif á líkamann og í verstu tilfellum flýta þær fyrir dauða þess sem reykir. Þær eru ofboðslega ávanabindandi en því miður er mjög gott að reykja, þannig að það er meiriháttar mál að hætta.

Þegar ég var læknir í Þýskalandi hafði ég talsverð afskipti af heróín-fíklum sem sumir hverjir voru að reyna að slíta sig lausa úr viðjum fíknarinnar. Nokkrir þeirra sögðu mér að það væri mun auðveldara að hætta að sprauta sig en reykja. Ég hef sem betur fer ekki þennan samanburð en sé enga ástæðu til annars en að taka fullt mark á þessu.

Flestir sem reyna að hætta reykingum notast því eðlilega við einhver nikótínlyf, sem gera þetta aðeins auðveldara. Þó ber að hafa í huga að það sem þarf fyrst og fremst til að hætta að reykja er einlægur vilji. Þú verður að vera harðákveðinn í að vilja losna undan oki tóbaksins og það er svosem enginn skortur á ástæðum til þess að renna stoðum undir þá ákvörðun. Betri líðan og heilsa hljóta að vega þyngst en einnig má horfa í efnahagslegan ábata af reykleysinu og í raun er geggjun að þurfa að greiða daglega um 1300 króna skatt í formi sígarettupakka fyrir það eitt að fara fram úr rúminu.

Pissaðu eitrinu
Ég ætla að fara hér yfir helstu hjálpartækin og mína leið til að hætta sem ég hef fulla trú á að geti gagnast fleirum. Í upphafi er rétt að hafa í huga að eftir sjö daga reykleysi er líkamlega þörfin fyrir smókinn farin. Sigurinn er þó fjarri því að vera unninn vegna þess að hausinn er enn í rugli og vaninn kallar enn hástöfum á sígarettuna. Fyrstu vikuna er um að gera að drekka mikið vatn og spara við sig kaffi eða aðra drykki sem eru oft nátengdir sígarettunni. Með vatninu skolast eitrið fyrr út úr líkamanum og því fyrr sem maður mígur því út því betra.

Reykleysi fylgja ýmsar hvimleiðar breytingar á líkamsstarfesminni og best er að reyna að draga sem fyrst úr áhrifum þeirra enda er fíkillinn fljótur að finna í þeim afsökun til að byrja aftur. Reykleysið á til dæmis það til að hægja á meltingunni og valda hægðatregðu. Sérlega þreytandi kvilli en auðvelt að koma í veg fyrir þetta með því að taka inn magnesíum daglega. Þá skilar þetta sér allt hressilega án mikils rembings.

Heilinn vill þó ennþá sitt þannig að það er um að gera að rugla hann með nikótínlyfum og þótt nikótínið sé skaðlegt líkamanum, leggist á æðakerfið og fleira þá er það skömminni skárra en reykurinn. Lungun fá í það minnsta frið til að jafna sig og nikótínmagnið í lyfjunum er mun minna en í reyknum.

Nikótíntyggjóið
Hefur þann ókost að það er ekki síður ávanabindandi en sígarettan og mörg dæmi eru til um fólk sem japlar á nikótíntyggjóinu í áratugi. Mér fannst það líka vont á bragðið og þurrka munninn upp. Þeir sem nota tyggjó ættu eftir nokkra mánuði að reyna að skipta yfir í Extra eða annað venjulegt tyggjó.

Sogtöflurnar

Eru sama marki brenndar og tyggjóið. Fólk getur orðið háð því að troða þeim upp í sig og ekki finnst mér nú bragðið miklu skárra en af tyggjóinu.

Rafsígarettan

Það er að segja sú sem lítur út eins og sígaretta hefur þann kost helstan að manni líður eins og maður sé með sígarettu milli fingranna. Nú liggur fyrir, þrátt fyrir alla ókostina, að það er enn töff að reyka og með þessu tæki getur maður enn haldið aðeins í kúlið. Samt ekki, vegna þess að í raun er hallærislegt að reykja án þess að vera í raun að reykja. Þá er mikill ókostur við rafrettuna að fólk á það til að kasta henni frá sér eins og sígarettustubbi þegar það er búið að fá skammtinn sinn. Þetta getur því orðið dýrt sport.

Gufarinn
Er í tísku núna og virkar vel fyrir marga. Ókosturinn er að hann er nánast meira pirrandi en venjuleg sígaretta fyrir þá sem eru nálægt gufaranum. Þeim sem nota þetta tól finnst sjálfsagt að púa þetta hvar sem er, hvenær sem er. Og það sem verra er að flestir nota einhverjar ilmolíur með þessu þannig að lyktin af reyknum er verri en sú sem Salem Lights gefur frá sér. Svo er auðvitað ekki töff að ganga um eins og eldlaus dreki spúandi ailluilmandi stróknum út úr sér.

Zyban
Er í raun þunglyndislyf sem byrjað var að nota til þess að hjálpa þeim sem vilja hætta að reykja þegar í ljós kom að ein aukaverkunin var algert lystarleysi á sígarettum. Lyfið rýfur einhverjar nautnarásir í heilanum þannig að reykingar verða algert ógeð. Zyban virkar mjög vel og eftir að hafa tekið það í tvær vikur verður svo ógeðslegt að reykja að það er bara ekki hægt.

Ókosturinn er að þetta er geðlyf og fokkar í hausnum á fólki. Rannsóknir erlendis benda til þess að þeir sem nota lyfið eigi það til að stytta sér aldur. Það þarf þó ekki að skrifast eingöngu á lyfið þar sem eitt það erfiðasta við það að hætta að reykja er að fyrst um sinn gufar lífslöngunin upp. Fyrir reykingamanninn er reyklaust líf harla tilgangslaust. Þá er stórvarasamt að drekka ofan í Zyban og þekkt dæmi eru um að fólk sturlist, fari í blakkát og stofni sjálfum sér og öðrum í hættu, drukkið á Zyban.

Leið mín til sigurs
Allt ofantalið virkar þó fyrir einhverja þótt ég geti ekki mælt beinlínis með þessu, að fenginni reynslu. Öllum er þessum tólum ætlað að slá á nikótínlöngunina en því miður er fleira sem heldur í reykingamanninn en nikótínið. Alls konar kækir og vanahegðun tengd reykingum eur í raun verri við að eiga en fíknina sjálfa.

Mér finnst því mikilvægast að reyna að nota tæki sem hafa sem minnst áhrif á daglega hegðun og formúlan sem ég hef sett saman í því tilfelli er einföld: Nikótínplástur og nikótínstauturinn svokallaði.

Kosturinn við plásturinn er að hann dælir nikótíni jafnt og þétt út í blóðrásina og slær á löngunina. Maður verður líka seint háður því að líma á sig plástur þannig að eftir 4-6 mánuði er hægt að hætta með plásturinn. Ég ráðlegg fólki þó eindregið frá því að sofa með plásturinn. Nikótínið er örvandi og ávísun á andvökur og þegar fólk sofnar með plásturinn á það til að fá svo truflaðar draumfarir að þegar það vaknar líður því eins og það hafi verið á sýrutrippi. Getur verið áhugavert af og til en mjög slítandi til lengdar.

Frelsi á hálfu ári
Til þess að vinna á kækjum er gott að styðja plásturinn með stautnum. Það rýkur ekki úr honum eins og gufaranum og rafrettunni, sem er ótvíræður kostur. Þá er hann ekki að þykjast vera sígaretta þannig að sá sem notar hann er í raun að lýsa þessu yfir: "Ég veit að ég er hallærislegur en ég var einu sinni töff og reykti." Um það leiti sem plástrinum sleppir er löngunin í sígarettu orðin það fjarlæg að hægt er að nota sama nikótínhylkið í stautnum heilan dag eða lengur og draga þannig úr áhrifamætti stautsins, þangað til maður hættir sjálfkrafa að nota hann og er laus við alla nikótínfíkn og reykingakæki.

Sama hvaða aðferð þið veljið þá segi ég bara: Gangi ykkur vel og fram til sigurs!