Prótín er okkur gríðarlega mikilvægt enda helsta byggingarefni líkamans. Það má því alls ekki skorta og fólk ætti að gæta vandlega að því að fá nóg prótein þar sem það byggir meðal annars upp vöðva og líffæri.
Alls kyns prótín-duft hefur notið mikilla vinsælda á síðustu árum og svo sem ekkert út á það að setja að fólk taki inn auka skammt af prótíni í því formi. Ekki síst ef fólk æfir stíft og reynir mikið á líkamann. Sjálfur er ég þó eindregið fylgjandi því að við tökum sem mest prótín inn með fæðunni og í því sambandi hika ég ekki við að mæla fyrst og fremst með kjötáti.
Þegar fólk leitaði til mín í kjölfar andlegra áfalla byrjaði ég til dæmis alltaf á því að segja þeim að fara og fá sér stóra, blóðuga og safaríka nautasteik, með bernaise-sósu og bakaðri kartöflu. Síðan er hægt að takast á við erfiðleikana. Prótínlítill er líkamaminn ekki til stórræðanna líklegur og andinn engu betur á sig kominn.
Prótín eflir baráttuþrek
Þessari uppáskrift minni fylgdi ég jafnan úr hlaði með þessum orðum: "Herinn verður að fá prótín." Sá sem er illa fyrir kallaður og skortir prótín hefur nefnilega ekki sigur í neinni baráttu. Mér finnst stríðslíkingin fanga mikilvægi prótínsins fyrir okkur ágætlega og hef sagt ótal mörgum sjúklingum mínum sanna dæmisögu úr seinni heimsstyrjöldinni.
Í eyðimörk Afríku mættust skriðdrekasveitir herforingjanna Erwins Rommel og Bernards Montgomery. Rommel var einn sigursælasti herforingi Þjóðverja, kallaður eyðimerkurrefurinn, en eyðimerkurrottunni Montgomery tókst að stöðva sigurför þess fyrrnefnda í Afríku. Herkænskan ein réði þar ekki úrslitum. Margt spilaði inn í, þar á meðal mataræðið, en herlið Montgomerys hafði aðgang að mun betri mat en Þjóðverjarnir sem smám saman urðu undan að láta. Herinn verður nefnilega að fá prótín!
Hitler var grænmetisæta
Þar sem ég tel kjöt besta matinn þegar kemur að prótíni er ég vitaskuld ekki fylgjandi eintómu grænmetisáti og minni fólk oft á að Hitler hafi verið grænmetisæta. Sú staðreynd rennir stoðum undir þá kenningu mína að kjöt sé andlegri heilsu mjög mikilvægt, enda vandfundari meiri klikkhausar en Hitler. En hann lét einmitt drepa Rommel. Einhverjar sögur fara einnig af grænmetisáti Montgomerys en ég læt þær venjulega liggja milli hluta.
Þeir sem kjósa að lifa eingöngu á grasi eru þó sem betur fer ekki dæmdir í algeran vesældóm til lífstíðar. Prótínrík matvæli fyrirfinnast einnig fyrir grænmetisætur, til dæmis soya-mjólk, hnetur, brokkólí og spínat. Grænmetisætur ættu að huga sérstaklega að því að fá nóg prótein með matnum en þetta er öllu einfaldara fyrir okkur hin þar sem við fáum prótín meðal annars í kjöti, fiski, eggjum og mjólk.
Ég ítreka að fólk ætti að uppfylla prótínþörf sína sem mest með mataræðinu en þeir sem telja sig þurfa viðbót geta bætt á sig drykkum úr prótíndufti. Gætið þess bara að neyta þeirra í hófi og alls ekki láta þá koma í staðinn fyrir prótíninntöku með mat.