Geðsjúkdómar og andleg mein eru erfið viðureignar, ekki síst vegna þess að þau hafa í gegnum tíðina ekki notið sömu “virðingar”, ef svo má að orði komast, og líkamlegir sjúkdómar. Þetta er auðvitað geggjun þar sem pestir sem leggjast á sálina geta verið jafn banvænar og til dæmis krabbamein.
Fyrr á öldum voru þeir sem þjáðust af geðsjúkdómum oft taldir andsetnir og afgreiddir með jaðarsetningu, pyntingum eða dauða. Seinna meir þótti sjálfsagt að flokka fólk sem var alvarlega veikt á geði sem aumingja. Þeir þunglyndu áttu bara að hrista af sér slenið, rífa sig upp úr körinni og læra að brosa. Hægara sagt en gert, eiginlega vonlaust án hjálpar og skilnings.
Viðhorf til geðsjúkdóma eru sem betur fer að breytast hratt og átak eins og #égerekkitabú, sem nú fer sem eldur í sinu um netið, er í einu orði sagt frábært þar sem slíkt hópefli feitletrar að þunglyndi, kvíði og aðrir geðrænir kvillar eru ekkert til að skammast sín fyrir og sýna svo ekki verður um villst að þessi mein leggjast á miklu fleiri en margan grunar.
Sjálfur hef ég kynnst þunglyndi á eigin skinni, kannski ekki alvarlegustu gerð þess, en árum saman leið mér eins og ég væri að drepast hægt og rólega úr leiðindum, áhugaleysi og doða gagnvart öllu í lífinu. Ég náði mér ekki á strik fyrr en ég var hættur að komast undan sænginni. Þorði beinlínis ekki út úr húsi. Þá greip góður vinur minn og félagi úr læknisfræðinni í taumana og tókst að ýta mér í gang.
Þunglyndi er erfitt viðureignar og það þýðir ekkert að segja þeim þunglyndu að rífa sig upp og drífa sig af stað. Það er ekkert hægt að gefa þeim veika start eins og rafmagnslausum bíl. Mín reynsla er sú að lyf séu mikilæg til þess að hefja batann en ein og sér hrökkva þau skammt. Best er að nota þau samhliða samtalsmeðferð en það mikilægasta af öllu er hreyfing, hreyfing, hreyfing!
Hreyfingin er öflugasta mótefnið gegn þunglyndinu enda má keyra upp endorfínframleiðsluna í heilanum með því að reyna vel á líkamann. Það er hins vegar engin hætta á því að sá þunglyndi rjúki upp úr þurru út að skokka eða synda. Í þunglyndinu erum við hrædd við allt. Allt er ógnvekjandi og virðist óyfirstíganlegt.
Meira að segja lyfin eru hræðileg og fráhrindandi. Hér eru nokkrar algengar aukaverkanir þunglyndislyfja: Aukin eða minnkuð matarlyst, blæðingatruflanir, breytt bragðskyn, hiti, hrollur, hraður hjartsláttur, hjartsláttarónot, höfuðverkur, svimi, þreyta, kviðverkir, hægðatregða, meltingartruflanir, vindgangur, minnkuð kynhvöt eða getuleysi. Munnþurrkur, aukin svitamyndun, ógleði, uppköst, niðurgangur, sjóntruflanir, skjálfti, taugaveiklun, óróleiki, svefntruflanir, útbrot, mikill kláði og þyngdartap.
Ef þetta er ekki nóg til að gera hvern sem er þunglyndan þá veit ég ekki hvað. En þetta er ekki svona slæmt og enginn þunglyndissjúklingur ætti að láta aukaverkanir fæla sig frá því að byrja að nota lyf. Ekkert er jafn hræðilegt í raun og veru og sá þunglyndi telur sér trú um. Og hægt og rólega má fikra sig í átt að meiri lífshamingju og gleði. Pína sig fyrst í heita pottinn, það getur verið gríðarstórt skref. Síðan aðeins út í laug og taka eina ferð, svo tvær og svo koll af kolli.
Mín uppáskrift gegn þunglyndi er: Lyf, samtalsmeðferð, helst hugræn atferlismeðferð, og svo hreyfing, hreyfing og meiri hreyfing. Tökum skrefið og styðjum þá sem við þekkjum og eru að hverfa inn í sig með ráðum og dáð.
#viðerumekkitabú