Fara í efni

GEGN SJÁLFSVÍGUM UNGRA KARLA

Geðhjálp og Rauði krossinn efna í sumar í samstarfi við 12 manna hlaupahóp til átaks- og forvarnarverkefnis gegn sjálfsvígum ungra karla á Íslandi undir yfirskriftinni Útme‘ða.
GEGN SJÁLFSVÍGUM UNGRA KARLA

Geðhjálp og Rauði krossinn efna í sumar í samstarfi við 12 manna hlaupahóp til átaks- og forvarnarverkefnis gegn sjálfsvígum ungra karla á Íslandi undir yfirskriftinni Útme‘ða.

Með slagorðinu eru ungir karlmenn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð til að stuðla að því að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. Sjálfsvíg hafa verið algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára á allra síðustu árum.

Framlag hlaupahópsins til átaksins verður að hlaupa  hringinn í kringum landið eftir þjóðvegi eitt . Markmið hópsins er að hlaupa vegalengdina á styttri tíma en nokkurn tímann hefur áður verið gert eða á innan við fimm sólarhringum. Hlaupahópurinn skiptir sér upp í fimm  pör í hlaupinu, einn karl og eina konu og hleypur hver hlaupari í 30 mínútur í senn í því skyni að halda hröðu ,,tempói” allan hringinn.

Hlaupið er mjög krefjandi því hver hlaupari þarf að meðaltali að hlaupa á 12 km hraða tæplega 30 km leið á hæðóttu undirlendi á hverjum einasta degi.  Á milli hlaupalota hvílast og nærast hlaupararnir í lítilli rútu.

Hlaupið hefst þann 30. júní og lýkur með grillveislu í Reykjavík þann 5. júlí.

Með hlaupinu vill hópurinn vekja athygli á hárri sjálfsvígstíðni ungra karla og safna  fé  til að kosta forvarnarmyndband og herferð til að fækka sjálfsvígum í þessum viðkvæma aldurshópi. Sjálfsvíg hafa tekið við af bílslysum sem algengasta dánarorsök ungra íslenskra karla á allra síðustu árum.


Almenningur verður hvattur til þess að hlaupa með hlaupurum og vekja athygli á málefninu með einum eða öðrum hætti í viðkomandi byggðarlagi. Fólk verður hvatt til að heita fé á hlauparana og styðja þannig verkefnið með beinum hætti. Stefnt er að því að herferðinni verði ýtt úr vör á Alþjóðlegum forvarnardegi gegn sjálfsvígum þann 10. september næstkomandi.

Hlaupaleiðin í kringum landið


Með þessu bréfi óskum við hlaupararnir, Rauði Krossinn og Geðhjálp liðsinnis þíns fyrirtækis við  að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ótímabær dauði karlmanna í blóma lífsins er blettur á íslensku samfélagi.

                                                     

Fyrir hönd Geðhjálpar              Fyrir hönd hlaupahóps         Fyrir hönd Rauða krossins     

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir          Linda Svanbergsdóttir             Hermann Ottósson