Þríþrautinni ekki til framdráttar – mínar vangaveltur!
Ég tók í fyrsta skipti þátt í Bláa Lóns hjólakeppninni sem fram fór um þarsíðustu helgi. 530 manns voru skráðir til leiks sem er frábært og flestir náðu í mark fyrir myrkur þrátt fyrir óhemju drullu á leiðinni og leiðinda veður. Hafsteinn Ægir Geirsson, fremsti hjólreiðamaður Íslendinga, sigraði eftir æsispennandi keppni við atvinnumanninn Martin Haugo frá Noregi. Svo spennandi var keppnin þeirra á milli að einungis munaði einni sekúndu á þessari tæplega 60 km leið. Eins og svo oft áður þá virkaði ekki fyrir andstæðinga Hafsteins að vera með forystu nánast alla leið; hann tók þetta á síðustu metrunum. Ég knúsaði drenginn í sturtunni í Bláa Lóninu og spurði hann hvort hann ætlaði alltaf að sigra í sínum keppnum alveg á blá-endasprettinum. „Það er síðasti sjénsinn ef maður ætlar að sigra!“ svaraði þessi mikli snillingur.
En í þessari keppni gafst líka gott tækifæri til að njóta náttúrunnar og hugsa góðar hugsanir. Inn á milli þess sem ég skammaðist út í sjálfan mig yfir því að hafa farið óundirbúinn í þessa keppni, þá fóru hugsanir úr einu í annað. Eitt af því sem kom upp á leiðinni var úthlutun úr Viljastyrk Saffran. Viljastyrkur Saffran er afreks- og styrktarsjóður, sem ætlað er að styðja við bakið á íslensku afreksfólki í íþróttum. Þar voru valdir frábærir íslenskir íþróttamenn sem svo sannarlega eru framarlega í sinni íþrótt. Þar eru fjórir íþróttamenn sem eru fremstir hér á landi í sinni grein en ein undantekning er þar að mínu mati.
Vignir Þór Sverrisson er frábær íþróttamaður og þekki ég Vigni Þór af góðu einu; fyrirmyndar einstaklingur sem lætur gott af sér leiða á fleiri sviðum en bara íþróttasviðinu. Ég vona að samskipti okkar tveggja eigi ekki eftir að versna við þessi skrif enda skrifa ég þessar hugleiðingar mínar ekki til hans heldur þeirra sem ákváðu að hann skyldi vera einn þeirra sem hlaut útnefningu úr Viljastyrk Saffran.
Að mínu mati var valið á þríþrautarkempunni í þennan hóp ekki rétt. Á Íslandi eru margar góðar þríþrautarkempur, bæði í karla og ekki hvað síst í kvennaflokki. Nokkrir standa upp úr og hefðu átt, að ósekju, að verða fyrir valinu hvað þennan afreks- og styrktarsjóð varðar. Til dæmis hefði val á Stefáni Guðmundssyni verið vel til fundið enda Stefán efnilegur þríþrautarkappi sem nú þegar hefur náð stórkostlegum árangri og t.a.m. á Stefán einmitt Íslandsmetið í hálfum járnkarli. Aðrir sem hefði mátt velja eru Hákon Hrafn Sigurðsson en Hákon hefur verið nánast ósigraður í þríþraut hérlendis sl. tvö ár. Að lokum er ekki hægt annað en að minnast á Birnu Björnsdóttur. Að mínu mati hefði átt að velja hana sem fulltrúa þríþrautarinnar enda stórkostlegur íþróttamaður hér á ferð. Birna hefur verið ósigrandi í þríþraut eins lengi og elstu menn muna. Auk þess hefur hún náð hreint ótrúlegum árangri erlendis og lenti t.d. í 3ja sæti í ólympískri þríþraut í Köln sl. sumar. Flestum þríþrautaráhugamönnum dylst ekki hversu ótrúlega mikill árangur Birnu er.
En af hverju varð þríþrautarkempuvalið með þessum hætti? Ekki veit ég nákvæmlega af hverju eða hvort einhverjar aðrar ástæður en hæfni íþróttamannanna réðu því hver var valinn úr hópi þríþrautarmanna og –kvenna. Mig grunar hvað réði valinu en ætli sé ekki best að leyfa þeim sem völdu íþróttamennina að útskýra hvað lá að baki?
Annars fagna ég tilkomu þessa afreks- og styrktarsjóðs en vona að valið í framtíðinni byggist á enn frekari heilindum en að mínu mati viðgengust að þessu sinni.
Steinar B., næringarfræðingur og áhugamaður um íþróttir
Í óvissunni liggja tækifærin!
Nánari upplýsingar:
www.bluelagoonchallenge.com/
www.martinhaugo.com/?p=2602
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.