Rannsókn 2004
Árið 2004 birtist grein í breska blaðinu Guardian International eftir Ben Goldacre sem skrifaði um vísindaleg efni. Greinin heitir „Rusty results“ og segir frá ýmsum efnagreiningum sem voru gerðar (þessa grein má finna á netinu á
http://www.badscience.net/2004/09/rusty-results/
Í stuttu máli fundust engin eiturefni, bara ryð (járnoxíð) og sama gerðist ef nagli var settur í baðið í stað fótanna. Ef einhver efast um þetta er hægt að gera eftirfarandi tilraun í eldhúsinu: takið ílát úr gleri eða plasti og setjið í það vatn og svolítið matarsalt; takið tvo nagla (ekki galvaníseraða) eða aðra hluti úr járni, tengið þá við rafhlöðu og setjið í sitt hvorn enda ílátsins; eftir nokkurn tíma litast vatnið eins og lýst var í fótabaðinu og liturinn er ryð vegna þess að rafstraumurinn veldur tæringu á járninu.
Engin innistæða
Lýsing frameiðenda þessara tækja á sér engan vísindalegan grunn og enga stoð í raunveruleikanum. Þau efni sem líkaminn þarf að losa sig við og hægt væri að kalla „eiturefni“ (þvagefni, þvagsýra, kreatinín, lyf, þungmálmar o.fl.) losar líkaminn sig við fyrir tilstilli lifrar og nýrna og engin þessara efna fundust við efnagreiningu á innihaldi fótabaðsins. Þessi efni komast þar að auki ákaflega illa í gegnum húð.
Margir hefðu haldið að rannsóknir og umfjöllun eins og átti sér stað 2004 hefði átt að opna augu fólks og setja svona tæki út í kuldann en því miður virðist þessi „iðnaður“ blómstra og a.m.k. ein gerð þessara tækja er með íslenskan umboðsaðila og er seld hér á landi.
Niðurstaða
Detox fótaböð eiga sér engan vísindalegan grunn, rannsóknir hafa sýnt að það eina sem safnast í vatnið og gefur því lit er ryð. Engar rannsóknir hafa verið birtar sem sýna þau áhrif sem lofað er af seljendum tækjanna. Þessi fótaböð eru því hrein blekking.
Magnús Jóhannsson læknir og prófessor emeritus
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.
t-póstur: magjoh@hi.is