Ef það er talið mikilvægt að við forðumst sumt og borðum meira af öðru af hverju er þá ekki lagt ofurkapp á að upplýsingar á umbúðum séu skiljanlegar? Nú veit ég ekki með ykkur en ég er ekkert alveg með það á hreinu hvort 2,3 grömm af salti í 100 gramma af vöru sé mikið eða lítið (og svona til að flækja málið enn frekar hefur mátt gefa upp natríum magn en þá þarf að margfalda með 2,5 til að fá saltmagnið). Nú hvað með 14,3 grömm af kolvetni í 100 gramma vöru? Þýðir það að hún innihaldi mikinn sykur eða lítinn? Og er einsykra betri en tvísykra? Veit annars einhver hvað tvísykra er?
Landlæknisembættið hefur brugðið á það ráð að setja upp vefsíðu sem sýnir magn sykurs í matvörum á myndrænan hátt. Þetta er gott framtak sem ég get ekki skilið öðruvísi en að embættið telji að merkingar á matvælum séu ekki nógu skýrar. Neytendur þurfi sem sagt aðstoð á myndrænu formi. Ég spyr því aftur; ætti baráttan ekki aðallega að snúast um að merkingar á mat séu þannig að fólk skilji þær? Er ekki eitthvað öfugsnúið við að ég þurfi að fara á netið á sérstaka vefsíðu til að skilja hversu mikill sykur er í ákveðinni vöru en ef ég stend úti í búð með vöruna í hendinni þá er ég litlu nær?
Ég er ekki ein um að pirrast yfir því að mikilvægum upplýsingum sé haldið frá neytendum með því að klæða þær í búning sem fáir skilja. Þegar Evrópusambandið var að vinna að nýrri löggjöf um merkingar á matvælum var í upphafi gert ráð fyrir því að svokallaðar umferðaljósamerkingar væru settar á matvæli. Hugmyndin er einföld. Litir eru notaðir til að segja til um magn sykurs, fitu og salts. Grænt þýðir að magnið er lítið, gult að magnið er í meðallagi og rautt að magnið er mikið. Matvælaframleiðendur voru ekki sáttir við þessi plön sem og önnur sem sneru að auknum og skiljanlegri upplýsingum til neytenda og lögðust í gríðarlega hagsmunagæslu. Svo mikla reyndar að talið er að aldrei hafi lobbýistar í Brussel lagt annað eins á sig. Niðurstaðan var sú að meirihlutinn kaus gegn tillögunni um litamerkingar á matvæli.
Margir þingmenn og talsmenn félagasamtaka lýstu í framhaldi yfir vonbrigðum með niðurstöðuna. Kartika Liotard þingmaður frá Hollandi sagði að neytendur hefðu orðið undir i baráttunni og gagnrýndi að þingmenn hefðu látið undan miklum þrýstingi framleiðenda. „Hvernig er hægt að styðja litamerkingar á heimilistæki, bíla og rafmagnstæki en ekki á mat og drykk“ spurði hún.
Susanne Løgstrup formaður Evrópsku hjartasamtakanna harmaði niðurstöðuna og sagði það þá vera á ábyrgð ráðherraráðsins og aðildarlandanna að hjálpa neytendum með því að heimila einstaka löndum að nota umferðaljósamerkingar.
Monique Goyens formaður Evrópusamtaka neytenda sagði: „Þrátt fyrir að hafa fengið mikið af gögnum og rannsóknum sem staðfestu að neytendur vildu næringargildismerkingar í lit þá greiddu þingmenn á einhvern óútskýranlegan hátt atkvæði gegn tillögunni. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig eigi að sannfæra löggjafavaldið um að baráttan við offitu og fyrir bættri lýðheilsu kallar á aðgerðir í dag en ekki á morgun. Það er engin vafi að þessi atkvæðagreiðsla er alvarlegt bakslag.“
Bretar hafa notað umferðaljósamerkingar í áratug í ýmsum útfærslum og árið 2013 var ný samræmd merking kynnt til sögunnar. Merkingin er valfrjáls, þ.e. það er ekki hægt að skylda framleiðendur til að nota hana en þrátt fyrir það hafa margir framleiðendur, litlir og stórir, valið að merkja vörur sínar á þennan hátt. Tvisvar sinnum hef ég ásamt þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu um að hér verði teknar upp umferðarljósamerkingar að breskri fyrirmynd. Nokkur áhugi er á málinu meðal þingmanna en ég verð að viðurkenna að það eru vonbrigði hversu fáar umsagnir hafa borist og allar eru þær neikvæðar utan ein. Tillagan verður þó endurflutt á næsta þingi því það er mín skoðun að neytendur eigi skýlausan rétt á því að geta tekið upplýsta ákvörðun þegar þeir versla í matinn og það gera þeir ekki nema merkingarnar séu skiljanlegar.
Brynhildur Pétursdóttir
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.
Heimild: kjarninn.is