Í formálanum í bókinni lýsir Tolle, sem hafði átt við langvarandi þunglyndi að stríða, hvernig honum leið eina andvökunótt eins og svo oft áður. Hann sá allt svart. Hann var farinn að hugsa: „Ég get ekki lifað með mér lengur“. Allt í einu áttaði hann sig á því hvað hann var að hugsa. „Ég get ekki lifað með mér lengur“, eins og hann væri tvær manneskjur. Þar með skildi hann að hugurinn er ekki við sjálf, heldur erum við sjálf á bak við hugann og við getum nýtt okkur hann til að hjálpa okkur í stað þess að vera stöðugt undir stjórn hans. Eftir að Tolle varð þetta ljóst, sá hann allt í öðru ljósi. Hann hafði orðið fyrir hugljómun. Við það sofnaði hann vært og þegar hann vaknaði var allt bjartara. Hann sá umhverfið í allt öðru ljósi. Skynjun hans var betri, hann sá og heyrði allt betur. Hann komst að því að ef að hugurinn er við stjórn, þá leitar hann í fortíðina, þá helst þegar okkur hefur liðið illa. Hann lætur okkur kvíða fyrir framtíðinni og fer sem minnst í núið.
Mér er í fersku minni þegar sonur minn sagði við mig þegar hann var lítill drengur, og einhver pirringur var á heimilinu: ,,Mikið vildi ég að jólin væru komin". Þegar ég bað hann um nánari útskýringu á þessum ummælum, þar sem jólin voru ekki í nánd, sagði hann: „Þá eru allir í svo góðu skapi“. Ég lærði mikið af þessu. Það á ekki að þurfa jól til að við séum í góðu skapi. Við þurfum bara að vera meðvituð og ákveða í hvernig skapi við viljum vera. Tolle leggur ríka áherslu á að vera ekki að dæma það sem er, heldur að upplifa það og njóta þess. Hann vill líka að við setjum okkur markmið og ákveðum hvernig við ætlum að ná þeim, í framhaldi að því eigum við að einbeita okkur að því að vera í núinu og þá færumst við sjálfkrafa að markmiðunum. Hann segir að við getum ekki verið örugg um framtíðina. Eina sem við vitum, er að við eigum næsta andartak og við eigum að njóta þess.
Það eru ýmsar leiðir til að komast í núið. Margir hugleiða reglulega til að komast í núið, aðrir fara á námskeið í gjörhygli (e. mindfulness) og enn aðrir lesa bækur til að þjálfa sig í að vera í núinu. Allt þetta kemur sér vel. Það er líka hægt að æfa sig með því að slaka á og hlusta á sinn eigin andardrátt í smá stund og komast þannig í núið.
Í bókinni bendir Tolle á þrjá möguleika sem geta hjálpað þeim sem eru óánægðir með hlutskipti sitt og eru jafnvel stöðugt að að kvarta undan því. Það er í fyrsta lagi að koma sér í burt frá vandamálinu, í öðru lagi að gera eitthvað til að breyta því, og í þriðja lagi að sætta sig við stöðuna eins og hún er og gera það til fulls.
Eftir Þórdísi Guðjónsdóttur fyrir hönd Lækjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Greinin er sjötta greinin af tíu í greinarröð jafn margra úrræða og/eða félaga á geðheilbrigðissviðinu á höfuðborgarsvæðinu um Geðorðin 10.