Þá sýna niðurstöður sömu könnunar að um þriðjungur svarenda hendir lyfjum í rusl, vask eða klósett og 13% losar sig aldrei við lyf.
Þrátt fyrir að tæp 70% telji sig vita hvernig heppilegast er að losa sig við útrunnin eða ónotuð lyf eru einungis 57,5% sem nýta sér þann möguleika.
Á árinu 2015 voru skráðar 841 fyrirspurn vegna eitranatilvika hjá Eitrunarmiðstöð Landspítalans og hefur fjöldi þeirra sem leita til Landspítala vegna eitrana staðið í stað undanfarin ár. Flestar fyrirspurnir eru vegna lyfjaeitrana. Á árinu 2015 varðaði um fjórðungur fyrirspurna vegna lyfjaeitrana börn 6 ára og yngri.
55 ára og eldri einstaklingar, stærsti notendahópur lyfja, er duglegastur að skila lyfjum til eyðingar í apótek. Rúmlega 70% þeirra segjast skila lyfjum til eyðingar í apótek. Sami hópur hendir lyfjum síður í rusl, vask eða klósett eða um 18% aðspurðra.
Þeir sem henda lyfjum oftast í rusl, vask eða klósett eru einstaklingar á aldrinum 25-34 ára en rúmlega helmingur þeirra segist henda lyfjum í rusl, vask eða klósett. Ef hópurinn sem segist henda lyfjum í rusl, vask eða klósett er greindur eftir fjölskyldugerð kemur í ljós að stærsti hópurinn þar, eða tæp 40%, býr á heimili þar sem býr fullorðið fólk ásamt einu til tveimur börnum.
"Fjöldi fyrirspurna sem berast Eitrunarmiðstöðinni vegna lyfjaeitrana hjá börnum sýna að börn komast hættulega mikið í lyf í heimahúsum og það er full ástæða til að taka á því" segir Sigríður Ólafsdóttir, sviðsstjóri eftirlitssviðs hjá Lyfjastofnun.
Lyfjastofnun fer af stað með átakið Lyfjaskil - taktu til! í byrjun mars. Átakið miðar að því að auka öryggi í kringum geymslu lyfja á íslenskum heimilum og efla skil á ónotuðum lyfjum til eyðingar í apótek.
Grein af vef lyfjastofnun.is