Það ár var fyrirtíðaspenna notuð á árangursríkan hátt sem vörn í tveimur breskum dómsmálum. Í kjölfar þess varð gífurleg aukning á greinum um fyrirtíðaspennu í tímaritum fyrir almenning. Sú umfjöllun var að öllu jöfnu mjög neikvæð. Ótal einkenni (hátt á annað hundrað) voru nefnd og sagt að konur þjáðust af þeim fyrir blæðingar. Jafnframt var hegðun kvenna sögð breytast mjög til hins verra.
Í íslenskri umfjöllun á níunda áratugnum kom fram að fyrirtíðaspenna væri talin orsaka helming sjálfsmorðstilrauna kvenna. Jafnframt var haldið fram að 20-40% kvenþjóðarinnar væri haldin fyrirtíðaspennu sem lýsti sér þannig að kona sem að öllu leyti virtist eðlileg í eðlilegu umhverfi, umturnaðist allt í einu og hefði allt á hornum sér. Skammaði mann sinn og börn af minnsta tilefni, skellti hurðum og hlypi jafnvel að heiman og á öldurhús. Sæti inni í stofu um nætur, með dregið fyrir glugga og forðaðist gesti. Sæti við sjónvarpið og hámaði í sig sælgæti og hirti hvorki um sig né heimilið. Síðan við tíðir hyrfu öll einkenni og konan yrði aftur þessi duglega þægilega og samviskusama kona.
Íslenskum konum var jafnframt ráðlag að hafa hægt um sig á þessum tíma því öll ákvarðanataka væri erfið og konur sem væru illa haldnar af fyrirtíðaspennu ættu helst ekki að taka neinar meiriháttar ákvarðanir dagana fyrir blæðingar.
Ljóst er að hvorki konur né vísindamenn voru sátt við lýsingar af þessu tagi og ætla ég aðeins að rekja rannsóknir sem liggja að baki fyrirtíðaspennu.
Orsakir fyrirtíðaspennu eru ekki þekktar. Margar kenningar hafa verið prófaðar en engin ein sönnuð. Vegna tengsla einkenna við blæðingar lá beinast við að athuga tengsl einkenna við framleiðslu á kvenhormónunum estrogeni og progesteroni, sem er framleitt á síðari hluta tíðahrings. Engri rannsókn hefur þó tekist að sýna fram á tengsl einkenna við framleiðslu kvenhormónanna. Í dag er verið að athuga ýmsar kenningar sem tengjast myndun einkenna. T.d. hvaða lífeðlisfræði liggur að baki þunglyndiseinkennum og hvernig tengist hún tíðahring, hvaða lífeðlisfræði liggur að baki vökvasöfnun og hver eru tengslin við tíðahringinn, hvaða lífeðlisfræði liggur að baki löngun í sykur og hver eru tengsl við tíðahringinn ofl. Staðreyndin er hins vegar sú að orsökin er ekki þekkt.
Þar sem ekki er hægt að mæla líffræðileg efni til að greina fyrirtíðaspennu hafa konur verið spurðar. Mismunandi er hvernig þær hafa verið spurðar og hefur algengi m.a. verið háð því. Annarsvegar hafa þær verið beðnar um að hugsa aftur á bak í tímann og hvort þeim hafi liðið ver fyrir blæðingar en að öllu jöfnu. Konunum var yfirleitt afhentur listi yfir einkenni og þær beðnar um að merkja við þau einkenni sem voru slæm í vikunni fyrir blæðingar. Með þessum aðferðum hefur allt að 90% kvenna verið greind með fyrirtíðaspennu. Hinsvegar hafa konur skráð einkennadagbækur yfir mislangan tíma og niðurstöður þeirra rannsókna sýna algengi fyrirtíðaspennu frá 3% uppí 45%.
Ástæður þess að erfiðlega hefur gengið að afmarka algengi fyrirtíðaspennu má rekja til mismunandi skilgreininga vísindamanna á fyrirbærinu. Almennt má skilgreina fyrirtíðaspennu sem „breytingar á líðan sem fundin er með jöfnu millibili, af nægum styrkleika til að trufla daglegt líf að einhverju leyti og hægt er að segja fyrir um hvenær komi út frá blæðingum“. Það eru hinsvegar nokkrir þættir innan þessarar skilgreiningar sem taka verður tillit til og hefur verið mikið ósamræmi í því hvernig það hefur verið gert af mismunandi vísindamönnum.
Í fyrsta lagi eru einkennin sem þurfa að vera til staðar til greiningar á fyrirtíðaspennu ekki alltaf sömu tegundar. Þannig getur verið nægilegt í einni rannsókin að konan greini frá versnun í líkamlegum einkennum (brjóstaspennu, magaverk, bjúg o.s.frv.) á meðan aðrir nefna versnun í andlegum einkennum (pirringur, reiði, skapsveiflur ofl) eitt af skilyrðum þess að hægt sé að greina konu með fyrirtíðaspennu. Í öðru lagi hefur verið mismunandi hvort nægilegt sé að konan greini frá að eitt einkenni hafi versnað fyrir blæðingar eða hvort konan verði að greina frá versnandi líðan í fleiri einkennum. Í þriðja lagi hafa skilgreiningar á því hvernig eigi að mæla styrk breytinga á líðan fyrir blæðingar verið mismunandi. T.d. ef kona er beðin um að lýsa einkennum á kvarða 0 –10 þar sem 0 þýðir að hún finni ekki fyrir einkenninu en 10 að það sé óbærilegt hvaða tölu þarf hún þá að nefna til að hún greinist með breytingu á líðan frá venjubundnu ástandi. Er nóg að merkja við 2 eða verður konan að lágmarki að merkja við t.d. 4 svo hún greinist með breytingu á líðan. Í fjórða lagi hefur verið mismunandi hvaða dagar tíðahringsins skilgreina fyrirtíðafasann. Þannig hefur verið mismunandi hvort 4 dagar, 5 dagar, 7 dagar eða 9 dagar fyrir blæðingar hafar verið sagðir skilgreina fyrirtíðafasann eða hvort öðrum aðferðum hefur verið beitt. Í fimmta lagi hefur verið mismunandi hvort konan þurfi að vera einkennalaus á öðrum tímum tíðahringsins og ef svo er hvenær á hún þá að vera einkennalaus. Í sjötta lagi hefur verið mismunandi hvort einkennin verði að hafa áhrif á daglegt líf konunnar og í sjöunda lagi þá hefur í sumum rannsóknum verið nægilegt að konan greini frá slæmri líðan (í einu eða fleiri einkennum) í einum tíðahring svo hún greinist með fyrirtíðaspennu á meðan aðrar rannsóknir krefjast þess að konan greini frá slæmri líðan í fleiri tíðahringjum.
Í dag notast flestir við greiningarbók bandarískra geðlækna til að greina fyrirtíðaspennu. Þar felur skilgreiningin m.a. í sér að 5 einkenni verða að breytast til hins verra fyrir blæðingar og þarf eitt hinna 5 einkenna að vera af tilfinningalegum eða andlegum toga spunnið. Konan þarf einnig að tiltaka að hennar ástand hafi slæm áhrif á vinnu, skóla eða félagsleg samskipti. Hún þarf jafnframt að vera einkennalaus vikuna eftir að blæðingum lýkur. Einkennin þurfa að vera til staðar að lágmarki tvo tíðahringi. Ekki er sagt fyrir um hvernig eigi að mæla styrk einkenna.
Þegar notast er við greiningarkerfi bandarísku geðlæknasamtakanna mælist algengi fyrirtíðaspennu á bilinu 3 – 15%. Í íslenskri rannsókn á algengi fyrirtíðaspennu skv. greiningarkerfinu greindust 2% – 6% þátttakenda með fyrirtíðaspennu.
Eins og kom fram hér að ofan þá hefur fyrirtíðaspenna greinst hjá allt að 90% kvenna þegar þær eru beðnar um að hugsa aftur í tímann og lýsa líðan sinni. Hinsvegar hjá margfalt færri þegar þær skrá heilsudagbækur. Í íslensku rannsókninni sem nefnd var hér að ofan töldu 51% kvennanna sem tóku þátt í rannsókninni að þær hefðu fyrirtíðaspennu. Einungis 2% – 6% greindust hinsvegar með fyrirtíðaspennu. Þetta er ekki einstakt fyrir íslenskar rannsóknir, heldur hefur komið endurtekið fram erlendis. Hverju sætir þessi mikli munur?
Svarið má hugsanlega rekja til tveggja meginþátta. Í fyrsta lagi til mismunandi skilgreininga almennings og vísindamanna á fyrirtíðaspennu. Á íslensku er einungis til eitt hugtak yfir fyrirtíðaspennu. Svo er ekki í ensku. Þar hafa nafngiftir tekið breytingum samkvæmt tilraunum vísindamanna til að öðlast betri skilning á fyrirbærinu. Á ensku var fyrst talað um 21‚ það hugtak þótti of takmarkað þannig að farið varið var að tala um premenstrual syndrome, sem á að endurspegla að þarna sé um heilkenni að ræða. Samfara niðurstöðum sem sýndu gífurlegt algengi kom fram hugtakið premenstrual changes eða fyrirtíðabreytingar, sem á að lýsa konu sem finnur fyrir einhverjum breytingum án þess að það trufli hana mikið. Greiningarlíkan bandarískra geðlækna hét fyrst late luteal phase dysphoric disorder og síðar breyttist heitið í‚ premenstrual dysphoric disorder (PMDD). Það er í dag heitið yfir sjúkdómsgreiningu þeirra kvenna sem eru svo illa haldnar af fyrirtíðaspennu að það er talið trufla geðheilsu þeirra. Almenningur áttar sig ekki endilega á þessum mismunandi nafnagiftum fræðimanna. Á Íslandi er samheitið einfaldlega fyrirtíðaspenna, í Ameríku premenstrual syndrome og í Bretlandi premenstrual tension. Því getur verið að þegar 51% kvennanna í ofannefndu íslensku rannsókninni hafi sagst verið með fyrirtíðaspennu hafi þær verið að tala um allt annað en að þær væru með PMDD. Það kom líka í ljós þegar farið var að grafast fyrir um hvað þær meintu þegar þær sögðust hafa fyrirtíðaspennu. Fyrirtíðaspenna var ekki sjúkdómur í þeirra huga, þær voru að tala um einkenni sem þær fundu stundum fyrir, alls ekki í hverjum tíðahring og hindruðu ekki að þær gætu sinnt vinnu, fjölskyldu og félagslífi. Þær sögðust nota hugtakið fyrirtíðaspenna yfir eðlilegan hlut í sínu lífi, sem þær tækjust á við með algengum úrræðum eins og t.d. því að passa upp á mataræði, líkamsrækt, hafa jafnvægi á milli hvíldar og svefns og almennri streitustjórnun.
Í öðru lagi þá getur verið að þegar konur hugsa um líðan sína aftur í tímann þá standi upp úr þau skipti sem voru óþægilegust. Það er nefninlega þannig að sama konan getur fundið fyrir t.d. höfuðverk fyrir blæðingar í einum tíðahring, svo ekki í þeim næstu tveim en þá aftur og svo mismunandi. Svo ég vitni aftur í íslensku rannsóknina þá kom þar í ljós að af 57 einkennum sem konurnar skráðu dag frá degi í allt að 6 mánuði kom það fyrir hjá 81% kvennanna að þær fyndu fyrir verri líðan í að a.m.k einu einkenni fyrir blæðingar miðað við venjubundið ástand. Þetta segir að líðan kvenna er mjög breytileg frá einum tíðahring til hins næsta og það sýnir sig þegar konur eru spurðar að því hvort þær hafi fyrirtíðaspennu eður ei.
Ljóst virðist að konur noti mikið orðið fyrirtíðaspenna til að lýsa líðan sinni fyrir blæðingar. Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir að mjög misslæm líðan getur legið að baki hjá mismunandi konum. T.d. þá geta 8 konur í tíu kvenna saumklúbb sagst hafa fyrirtíðaspennu en einungis ein þeirra er verulega illa haldin. Þessi eina getur túlkað umræðuna þannig að allar hinar 7 séu jafn illa haldnar og hún og að hennar mikla vanlíðan sé partur af því að vera kona. Hún leitar því ekki neinnar meðferðar og hennar mikla vanlíðan tapast í almennu tali saumaklúbbssystra.
Ein meðferð sem hentar öllum konum er ekki þekkt. Hinsvegar eru mismunandi leiðir sem konur geta farið. Ein er almenn úrræði sem nefnd voru hér að ofan. Þau gagnast hins vegar síður konum sem greinast með PMDD. Þá þarf oft að beita lyfjameðferð. Við ákvörðun á meðferð þarf að horfa til þeirra einkenna sem konan finnur helst til. Það getur tekið tíma að finna rétta meðferð en í flestum tilvikum er hægt að aðstoða konur sem eru illa haldnar.
Algengustu einkenni sem konurnar greina frá að breytist fyrir blæðingar eru verkur eða þensla í brjóstum, uppþemba eða óþægindi frá kvið, tilfinning um þyngdaraukningu, húðvandamál, þreyta, bakverkur, aukin fæðuinntekt, pirringur, bjúgur, aukið næmi fyrir kulda, þunglyndi, skapsveiflur og reiði. Líkamlegu einkennin eru algengust hjá konum, hinsvegar eru það andlegu og tilfinningalegu einkennin sem valda mestri röskun. Frekar óalgengt er að konur almennt finni fyrir auknum styrk í sama einkenni yfir tvo eða fleiri samliggjandi tíðahringi. T.d. að höfuðverkur sé slæmur fyrir blæðingar þrjá tíðahringi samfleitt. Frekar að verkurinn sé til staðar einn tíðahring svo ekki næstu tvo og svo aftur þann fjórða o.s.frv.
Heimild: doktor.is