Í þessum pistli langar mig að útskýra muninn á smáskammtalyfjum (hómópatískum remedíum), grasalyfjum og hefðbundnum lyfjum.
Smáskammtalyf geta verið úr jurtum, dýrum, steinum, mold eða jafnvel mykju, en flest eru þau úr jurtum. Hugmyndin á bakvið smáskammtalyf er að það sem veldur einkennum (kvefi, verkjum, hita eða alvarlegum sjúkdómum), geti læknað þessi sömu einkenni, ef það er gefið á nógu útþynntu formi, þ.e. að “líkt lækni líkt”. Áhrifin af lyfinu eiga að vera því meiri sem lyfið er útþynntara. Þynningarefnið er yfirleitt vatn en steinefni eru þynnt með mjólkursykri og búnar til pillur. Flest smáskammtalyf eru svo útþynnt að það eru nánast engar líkur á því að ein einasta sameind af upphaflega efninu úr jurtinni/dýrinu/steininum sé til staðar í glasinu sem þú kaupir. Smáskammtalæknar halda því fram að vatnið/sykurinn “muni hvað það er”. Ef blandan var hrist vel í þynningarferlinu, þá séu lyfjaáhrifin í vatninu/sykrinum, þó lyfjasameindin sé ekki lengur til staðar eftir þynninguna.
Grasalyf eru úr heilum blöðum, hnýðum, rótum, stönglum eða berki jurta. Öfugt við smáskammtalyfin er hugmyndin sú að áhrifin aukist því sterkari sem blandan er, en ekki er mælt með of sterkum blöndum vegna aukaverkana og eituráhrifa sem þá geta hugsanlega komið fram. Grasalæknar og náttúrulæknar halda því fram að samspil margra efna í jurtinni valdi heildaráhrifum lyfsins. Þess vegna sé ekki nóg að einangra virka efnið úr jurtinni og gefa það.
Ýmis hefðbundin lyf sem læknar ávísa eru upphaflega úr jurtum, rétt eins og grasalyf og mörg smáskammtalyf. Munurinn er sá að í hefðbundnum lyfjum hefur virka efnið verið einangrað. Stundum er það framleitt efnafræðilega eða tæknilega, sem er bæði ódýrara og hlífir plöntunni í náttúrunni. Hefðbundin lyf fá ekki að fara á markað fyrr en virknin hefur verið sönnuð vísindalega, og aukaverkanir, milliverkanir við önnur lyf og ofnæmisviðbrögð hafa verið rannsökuð. Skammtastærð er metin til að fá sem mesta verkun, án þess að verulegar aukaverkanir eða milliverkanir komi fram.
Nú hafa ýmis smáskammtalyf og grasalyf verið prófuð vísindalega. Ekki hefur tekist að sýna fram á að smáskammtalyf komi að gagni umfram lyfleysu (placebo), þegar um sjúkdóma eins og kvef, höfuðverk, svefnleysi eða alvarlegri sjúkdóma er að ræða. Það þýðir að það hefur sömu áhrif að taka smáskammtalyf og hreint vatn eða sykurpillu. Möguleg áhrif eru eingöngu vegna væntinga um bata, vegna þess að sjúklingurinn trúir því að um lyf sé að ræða, og líður þess vegna betur eftir inntöku.
Afnæming er meðferð sem hefðbundnir læknar nota við erfiðu ofnæmi. Aðferðafræðin svipar að nokkru leyti til hugmynda smáskammtalækna. Ofnæmisvaldurinn “læknar” ofnæmið, sé hann gefinn sjúklingnum í vel útþynntu formi til að byrja með, svo útþynntu að ofnæmiseinkenni eins og útbrot, nefrennsli eða kláði í gómi verða minniháttar. Smám saman er gefinn sterkari skammtur, þar til sá sem af ofnæminu þjáist hefur “vanist” ofnæmisvaldinum. Ónæmiskerfi líkamans hefur þá aðlagast, hætt að bregðast við ofnæmisvaldinum. Ferlið getur tekið allt frá nokkrum mánuðum upp í 3 ár. Árangur afnæmismeðferðar er mismikill eftir því hver ofnæmisvaldurinn er, en áfram er unnið að því að þróa aðferðina.
Grasalyf hafa sum hver sannað gildi sitt, en önnur ekki. Virku efnin úr jurtunum hafa þá verið einangruð og prófuð vísindalega. Í einhverjum tilvikum hefur komið í ljós að samspil margra efna í jurtinni er nauðsynlegt til að ná fullri verkun. Kenning grasalækna um að það sé betra að nota heilar jurtir eða jurtahluta, frekar en einangruð efni úr jurtum, er ekkert ólík því sem við næringarfræðingar höldum fram um matinn sem við borðum. Það er betra að borða mat sem inniheldur blöndu af mörgum hollum næringarefnum, frekar en að taka inn einangruð fæðubótarefni á pilluformi. Í matvælum eru hundruð óþekktra og lítt þekktra efna sem ásamt orkuefnum, vítamínum og steinefnum, valda heildaráhrifum fæðunnar á líkamann.
Hefðbundin lyf bjarga mannslífum og . . . LESA MEIRA
Af vef upplyst.org