Erla hélt erindi á ráðstefnunni Lífsstíll og heilsa, sem fram fór í Hörpu um síðast liðna helgi, og fjallaði hún meðal annars um sambandið á milli líkamsþyngdar og heilsu, og hvers vegna það sé svona erfitt að ræða þyngd.
Erla Gerður hefur lengið unnið með einstaklingum í yfirþyngd, en er offita mikið vandamál hér á landi?
„Offita er heilbrigðisvandi hér á landi, eins og víðast annars staðar. Það eru um 20% landsmanna sem teljast í offitu, sem er mjög hátt hlutfall. Þetta eru um 60 þúsund manns. Þarna er ekki verið að tala um einstaklinga í ofþyngd sem er ekki endilega heilsufarsvandi, segir Erla Gerður og bætir við að kílóafjöldi segi ekki endilega alla söguna.“
„Þyngdin sjálf segir ekki alla söguna. Tengsl þyngdar og heilsu er falin í hlutfalli fituvefjar í líkamanum, dreifingu hans og efnaskiptavirkni. Feitur einstaklingur getur vissulega verið hraustur og einstaklingur sem flokkast í kjörþyngd getur verið með óhagstætt hlutfall fituvefjar og óheilbrigð efnaskipti og þannig verið í áhættu á fylgisjúkdómum offitu. Svokallaður líkamsþyngdarstuðull hefur verið notaður til að greina þarna á milli en hann er ekki góður mælikvarði fyrir einstaklinga, enda segir hann ekki hvert er hlutfall fituvefjar eða hver er virkni hans. Líkamsþyngdarstuðull er góður til að bera saman hópa enda hannaður til þess. Hann getur verið vísbending sem þarf að kunna að túlka rétt.“
Erla Gerður segir að kúrar virki ekki til langs tíma og geti í raun gert illt verra. Þá segir hún að megrun eins og hún hefur verið túlkuð, það er að fækka hitaeiningum og auka hreyfingu, sé ekki vænleg til árangurs og allra síst öfgar í þeim efnum. En hvers vegna reynist mörgum svona erfitt að létta sig?
„Þyngdarstjórnun er margþætt. Við erum ekki öll eins. Það eru svo ótal mörg atriði sem hafa áhrif bæði í umhverfi og í efnaskiptum líkamans. Margskonar hormón koma við sögu, heilinn túlkar skilaboð um svengd og seddu á mismunandi hátt milli einstaklinga, erfðir, lyf, lífshættir, þarmaflóran, streita, áföll í uppvexti og fjölmörg önnur atriði gera einstaklinga ólíka þegar kemur að þyngdarstjórnun. Ofuráhersla hefur verið lögð á einstaka þætti mataræðis, hitaeiningar og hreyfingu. Orka inn og orka út skiptir alveg máli, en er bara hluti af myndinni. Streita og svefntruflanir eru til dæmis verulega vanmetnir þættir þegar kemur að þyngdarstjórnun. Það þarf að finna leið sem hentar hverjum einstaklingi til langs tíma. Við erum of oft að fylgja einhverjum ráðum sem hafa dugað fyrir einhvern annan en eiga engan veginn við okkur sjálf,“ bætir Erla Gerður við.
Því hefur verið haldið fram að fólk sem léttist mikið og hratt fitni gjarnan aftur og eigi erfitt með að halda sér í kjörþyngd. Er þetta rétt, og hverju sætir?
„Það er rétt. Það er mun erfiðara fyrir einstaklinga sem hafa verið feitir að halda kjörþyngd. Líkaminn er hannaður til að safna fituvef og halda fast í hann. Líkaminn sækir í að „leiðrétta“ þyngdartapið. Fjölmörg kerfi líkamans koma þar við sögu. Forvarnir eru alltaf bestar, en það er samt ýmislegt hægt að gera til að koma sem bestu jafnvægi á líkamsstarfsemina og læra hvaða þættir skipta mestu máli hjá hverjum einstaklingi,“ segir Erla Gerður og bætir við að heildræn meðferð sem stuðlar að jafnvægi á líkama og sál sé besta meðferðin við offitu.
„Taka þarf tillit til mataræðis, hreyfingar, sjúkdóma, lyfja, svefns, streitu og annarra andlegra þátta ásamt notkun ávanabindandi efna. Horfa þarf á daglegar venjur og ekki síst matarvenjur. Skoða þarf aðstæður hvers einstaklings og setja upp áætlun sem hentar honum. Horfa þarf á meðferðina sem langtímaverkefni í stað kúra, enda er offita langvinnur sjúkdómur og ætti að vera meðhöndlaður af heilbrigðisstarfsfólki. Við þurfum að byrja að greina hvar vandinn liggur, finna leiðina sem hentar hverjum einstaklingi og virkja hana. Þegar búið er að leggja grunninn er hægt að nota sértækar leiðir til offitumeðferðar, þar sem þær eiga við,“ segir Erla Gerður að lokum.