Fara í efni

21. SILFURLEIKAR ÍR – 19. nóvember 2016

Á SEXTUGASTA AFMÆLISÁRI SILFURVERÐLAUNA VILHJÁLMS EINARSSONAR Í ÞRÍSTÖKKI Á ÓLYMPÍULEIKUNUM Í MELBOURNE 1956
21. SILFURLEIKAR ÍR – 19. nóvember 2016

Hinir árlegu Silfurleikar ÍR í frjálsum íþróttum verða haldnir í 21. sinn á laugardaginn 19. nóvember, í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

Á SEXTUGASTA AFMÆLISÁRI SILFURVERÐLAUNA VILHJÁLMS EINARSSONAR Í ÞRÍSTÖKKI 
Á ÓLYMPÍULEIKUNUM Í MELBOURNE 1956.
 

Leikarnir eru haldnir til heiðurs stórafreki Vilhjálms Einarssonar frá Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956, þegar hann vann silfurverðlaun í þrístökki.

Í ár eru einmitt 60 ár frá því að Vilhjálmur vann silfrið, sem voru fyrstu Ólympíuverðlaun Íslendings. Með stökkinu, sem var 16,25m setti hann ekki einungis Íslands- og Norðurlandamet heldur líka Ólympíumet sem stóð þar til da Silva sló það 2 klst síðar. Vilhjálmur á enn Íslandsmetið í þrístökki.

Silfurleikarnir hafa fest sig rækilega í sessi sem eitt stærsta og vinsælasta frjálsíþróttamót landsins. Leikana sækir mikill fjölda keppenda 17 ára og yngri frá mörgum félögum alls staðar af landinu.

Keppt er í fjölþraut barna 7 ára og yngri og 8-9 ára, 4þraut 10-11 ára og í hefðbundnum greinum frjálsra íþrótta í aldursflokkum 12-17 ára. Þrístökki er gert sérstaklega hátt undir höfði á Silfurleikum.

Keppni á mótinu hefst kl. 9 með keppni yngstu barnanna en aðrir aldursflokkar hefja keppni koll af kolli eftir því sem líður á daginn. Keppni stendur til kl. 18. Full ástæða er til að hvetja áhugasama til að mæta í höllina og fylgjast með skemmtilegri keppni þess unga og efnilega frjálsíþróttafólks sem tekur þátt í leikunum.

Frjálsíþróttadeild ÍR heldur Silfurleika ÍR og um 100 sjálfboðaliðar starfa á leikunum.

Tímaseðil mótsins og frekari upplýsingar er að finna hér 

Frekari upplýsingar veitir Margrét Héðinsdóttir, formaður Frjálsíþróttadeildar ÍR í síma 8541481 eða á netfanginu margret1301@gmail.com