Ábyrgð stjórnvalda gagnvart andlegum veikindum
Hafa fjölmiðlar leitað eftir svörum frá menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra hvernig standi á því að séum ekki að gera betur til að koma til móts við þarfir barna og ungmenna sem glíma við andleg veikindi og vanlíðan í skólum landsins?
Það er ekki nóg gert til að styðja við börn og ungmenni sem glíma við andleg veikindi. ,,Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna talar um að mannréttindi séu brotin á börnum þar sem þau þurfa að bíða í marga mánuði eða ár eftir viðeigandi þjónustu“. Það er mikið brottfall nemenda úr framhaldsskólum landsins sem glíma við andleg veikindi og má reikna með að mörg ungmenni sem koma upp úr grunnskóla fari ekki í framhaldsskóla þar sem þau hafa ekki fengið viðeigandi hjálp. Finnar skáru niður í kreppunni hjá sér og hafa ekki enn beðið þess bætur og sjá eftir þeirri forgangsröðun. Bretar eru með ókeypis sálfræðiþjónustu sem hefur skilað sér margfalt út í samfélagið fjárhagslega og að bættum lífsgæðum.
Það sparar nefnilega að forgangsraða rétt með að hjálpa börnum og ungmennum í skólum landsins með því að hafa fagmanneskjur til að sinna þessum veikindum. Með því er mikið forvarnarstarf unnið sem skilar sér í bættum lífsgæðum og betri framtíð.
Börn og ungmenni hafa þannig tækifæri á að halda áfram að mennta sig og fara út á vinnumarkaðinn sem skilar sér í tekjum fyrir samfélagið. Það getur komið í veg fyrir að börn og ungmenni einangrist, leita í vímuefni eða falla fyrir eigin hendi. Það eru 3 til 4 á mánuði sem falla fyrir eigin hendi á Íslandi og 500 til 600 sem reyna og að mestu leiti er þetta fólk sem hefur glímt við andleg veikindi.
Við þurfum mikla viðhorfsbreytingu hvernig fólk lítur til andlegra veikinda það getur hver sem er veikst eða einhver nálægt þér og þá skyldi maður ætla að þið vilduð hjálp. Það vantar meiri samkennd og stuðning svo börn, ungmenni og foreldrar fái þá hjálp sem þau þurfa. Maður á erfitt með að átta sig á hvað réttlætir það að gera lítið úr andlegum veikindum barna og ungmenna þegar þau fá ekki einu sinni þá hjálp sem þau þurfa. Það myndi ekki líðast ef um önnur veikindi væri um að ræða og það skiptir miklu að samfélagið og kerfið fari að gera betur þar sem þetta er langt í frá að vera í lagi.
Ég finn til með þessum börnum en frá 12 aldri hugsaði ég taka mitt eigið líf þar sem vanlíðan var svo mikil en sem betur fer hafði ég ekki kjarkinn. Ég sá hvað orsakaði mína líðan fyrir 13 árum og hef nýtt mér hjálpina síðan og klárað 3 skóla og útskrifaðist síðast sem félagsliði vorið 2016. Það kom nefnilega i ljós að mín líðan hafði ekkert með það að gera að ég var eitthvað síðri manneskja heldur voru það geðsjúkdómar sem höfðu gert það að verkum að ég átti erfitt með að læra í grunnskóla og entist í 2 mánuði í famhaldsskóla.
Höfundur greinar:
Eymundur Eymundsson, Grófinni geðverndarmiðstöð á Akureyri, ráðgjafi og félagsliði