Að binda sig eigin tilgangi - þriðjudagur og hugleiðing Guðna
Hjartað er keisarinn
Heitbindingin. Að heita sér. Að binda sig – eigin tilgangi. Heit bindingin límir saman hitann úr ljósinu, gleðina í ábyrgðinni og festuna í tilganginum.
Hjartað er keisarinn – en hvað þýðir það? Það þýðir að hjartað ræður för, það slær á meðan orkan í líkamanum endist, hjartað dregst saman og þenst út og sendir hljóðbylgur og rafbylgjur með skilaboðum út í raforkukerfi líkamans og í sálina og í heiminn allan. Limirnir dansa eftir slagi hjartans og hver einasta fruma líkamans heyrir söng þess.
Hjartað er keisarinn sem allt veit og öllu stjórnar. Hjartað afléttir öllum skuggum þegar það fær fullt slag rými; þá andvarpar það og víkur burtu streitunni eins og ekkert sé, býr til rými fyrir allt ljósið sitt. Því öll streita er aðþrengt hjarta – hjarta sem fær ekki að vera í friði.
Við skilgreinum okkur upp á nýtt, segjum upp áskriftinni að málflutningi skortsins og fórnarlambsins og heitbindumst nýju hlutverki í lífinu:
Ég er erindreki ástarinnar, boðberi ljóssins.